27. maí. 2013 10:39
Víkingar Ólafsvík náðu í sitt fyrsta stig í Pepsídeildinni í gær þegar Eyjamenn sóttu þá heim á Ólafsvíkurvöll. Leikurinn fór fram við fremur erfiðar aðstæður, vindurinn gerði leikmönnum erfitt fyrir í sóknaraðgerðum og vart sást marktækifæri í leiknum, enda lauk honum með markalausu jafntefli, því fyrsta í deildinni í sumar. Liðin voru engu að síður að sýna gott spil og ágætis fótbolta á köflum. Víkingar börðust vel og í heild var þetta besti leikur liðsins í sumar. Einar Hjörleifsson gamli fyrirliði Víkingsliðsins og markvörðurinn var í liðinu annan leikinn í röð. Hann stóð sig vel eins og Víkingsliðið í heild. Einar sagði eftir leikinn margt jákvætt í leik liðsins og stigið fínan stökkpall til að byggja á í næstu leikjum.