28. maí. 2013 06:15
Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi stefnir að fjölgun liðskiptaaðgerða á þessu ári sem nemur allt að 20 aðgerðum. Lögð er sérstök áhersla á eflingu á þessu sviði í ljósi langra biðlista en ríflega 250 einstaklingar bíða nú þessara aðgerða á suðvesturhorni landsins skv. tölulegum upplýsingum Landlæknisembættisins. Bið eftir aðgerð af þessu tagi getur því verið ríflega árslöng við núverandi og óbreyttar aðstæður. „Um er að ræða bæði aðgerðir a hné og mjöðm. Undanfarin þrjú erfiðleikaár í heilbrigðisþjónustu hafa verið gerðar um 110 aðgerðir á ári á sjúkrahúsinu á Akranesi og standa nú vonir til þess að þær verði ekki færri en 120 í ár. Liðskiptaaðgerðir eru talsvert kostnaðarsamar en mögulegt er að vinna að þessari fjölgun nú vegna skipulagsbreytinga og hagræðingar í starfseminni,“ segir Guðjón Brjánsson forstjóri HVE í samtali við Skessuhorn.