30. maí. 2013 11:49
Skrifað var undir nýjan stofnanasamning við hjúkrunarfræðinga á Heilbrigðisstofnun Vesturlands í gærkveldi. Í tilkynningu á heimsíðu HVE segir að forsendur samningsins sé 4,8% hækkun launa skv. jafnlaunaátaki stjórnvalda. Þar sem að enginn stofnanasamningur hafði verið gerður við HVE, voru í gildi átta samningar við hjúkrunarfræðinga frá fyrri tíð með nokkrum blæbrigðamun. „Talsvert verkefni var því að leita eftir samræmingu ýmissa þátta og náðust áfangar í þeim efnum. Samningurinn er gerður í trausti þess að fé fáist svo hægt verði að efna þau ákvæði sem leiða munu til aukinna útgjalda,“ segir í tilkynningunni. Stofnanasamningurinn var gerður þegar biðlund hjúkrunarfræðinga á HVE var á þrotum, einkum þeirra sem starfa á hand- og lyflæknisdeild sjúkrahússins á Akranesi. Eins og fram kom í frétt á vef Skessuhorns í fyrradag og í blaðinu í gær höfðu þeir boðað uppsagnir, en um 25 hjúkrunarfræðingar starfa á áðurnefndum deildum á Akranesi.