31. maí. 2013 10:48
Bílasalan Bílás við Smiðjuvelli á Akranesi fagnar 30 ára afmæli á morgun, laugardaginn 1. júní. Dagskrá verður frá klukkan 10-16. Milli klukkan 12 og 14 verður fjölskyldudagskrá þar sem sitthvað verður í boði; grillaðar pylsur, Bifhjólafélagið Skuggar sýnir fáka sína, fornbílar frá Samgöngusafni Borgarfjarðar verða á svæðinu, töframaðurinn Einar einstaki sýnir listir sínar, Alltaf gaman stjórnar leikjum og ýmislegt fleira verður í boði. Þá verða nýjustu bílarnir frá B&L, Heklu og Öskju á svæðinu, ferðavagnar af ýmsu tagi verða til sýnis og sölu og sérstakur glaðningur fylgir öllum seldum bílum á afmælisdaginn. Friðrik Jónsson, 92 ára áhugalistmálari sem lengi bjó á Akranesi, hefur sett upp sýningu með nokkrum málverka sinna á bílasölunni. Verða myndirnar til sýnis á morgun ásamt myndum frá Ernu Hafnes listmálara.