Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
14. júní. 2013 03:39

Sterk viðbrögð íbúa við tveimur þáttum í aðalskipulagi fyrir Akranes

Nýverið voru kynnt drög að endurskoðuðu aðalskipulagi Akraness fyrir árin 2013-2025. Þar eru lagðar til ýmsar breytingar á gildandi aðalskipulagi í nokkrum veigamiklum þáttum, meðal annars sem snerta strandlengjuna við bæinn. Á kynningarfundi um aðalskipulagið sem haldinn var 29. maí sl. kom fram gagnrýni á landfyllingar í grennd hafnarinnar svo sem í Steinsvör og út að Breið. Þá birti grasrótarfélagið Litli klúbburinn í þessari viku opnuauglýsingu í sjónvarpsvísinum Póstinum þar sem tillögur að landfyllingum við Breið að hluta, Skarfavör og Steinsvör voru harðlega gagnrýndar. Hvetur Litli klúbburinn íbúa á Akranesi til að kynna sér málið og mótmæla 70 þúsund fermetra uppfyllingu á svæðinu. Þá er önnur tillaga í drögum að nýju aðalskipulagi fyrir 2013-2025 sem íbúar hafa mótmælt kröftuglega. Snýst það mál um breytta landnotkun á bakkanum við Langasand, frá Faxabraut að útisturtunum, og lagt til að svæðið verði skilgreint fyrir verslun og þjónustu í stað þess að vera óhreift útivistarsvæði eins og það nú er.

Jafnframt liggur fyrir að fjárfestir sem sótti í mars sl. um land fyrir veitingastarfsemi fékk vilyrði umhverfis- og skipulagsnefndar, sem bæjarstjórn staðfesti, fyrir að hefja vinnu við drög að nýju deiliskipulagi á bökkunum. Til þess að sú framkvæmd hefði getað orðið að veruleika hefði þurft að breyta aðalskipulagi Jaðarsbakka.  Þessi ráðagerð hefur vægast sagt fallið í grýttan jarðveg meðal íbúa við Jaðarsbraut, frá Faxabraut að íþróttasvæðinu við Jaðarsbakka. Í kjölfar þess að málið var kynnt boðuðu þeir til fjölmenns íbúafundar og réðu lögmannsstofuna Lex til að gæta hagsmuna sinna gagnvart fyrirliggjandi tillögum til breytinga á deili- og aðalskipulagi við Jaðarsbakka. Mótmæli íbúa voru send bæjaryfirvöldum fyrir tilskilinn frest 13. júní sl.

 

Tekið verður tillit til athugasemda íbúa

Guðmundur Páll Jónsson, formaður bæjarráðs Akraness, segir í samtali við Skessuhorn að brugðist verði við gagnrýni um bæði framangreind mál enda sé það vilji bæjaryfirvalda að skapa samhljóm fyrir þeim breytingum sem gerðar verða í landi bæjarfélagsins með breyttu aðalskipulagi. „Varðandi Jaðarsbakkana er frestur til að skila inn athugasemdum nú liðinn. Ljóst er að komið hafa fram mjög sterk rök íbúa við Jaðarsbraut gegn fyrirliggjandi hugmyndum um breytta landnotkun og reyndar annarra bæjarbúa einnig sem nýta svæðið til útivistar.“ Guðmundur Páll segir að bæjaryfirvöld geti ekki annað en litið til þessara athugasemda. „Það er hvorki vilji né ætlun bæjaryfirvalda að höfða stríð gegn íbúum, né heldur að bærinn skapi sér skaðabótaskyldu gagnvart hugsanlegu verðfalli fasteigna sem af þessum breytingum gæti hlotist. Þetta mál mun fara fyrir bæjarstjórn með lögformlegum hætti en ég get upplýst að samkvæmt þeim óformlegu samtölum sem ég hef átt við aðra bæjarfulltrúa verður ekki mælt með að þessi breyting nái fram að ganga á aðalskipulagi Jaðarsbakka. Við tökum að sjálfsögðu tillit til framkominna athugasemda og mér sýnist vera nær hundrað prósent andstaða við málið meðal íbúa sem næst liggja Jaðarsbökkum,“ segir Guðmundur Páll í samtali við Skessuhorn. Hann tekur þó fram að umhverfis- og skipulagsnefnd og síðan bæjarstjórn eigi eftir að taka málið til formlegrar afgreiðslu og verði það gert við fyrsta tækifæri.

 

Ekki sama þörfin til staðar

Varðandi gagnrýni við fyrirhugaða landfyllingu frá Breið og að Akraneshöfn, sem auglýst er sem hluti af nýju aðalskipulagi, segir Guðmundur Páll viðbrögð sín þau að ekki sé þörf á svo mikilli landfyllingu sem fram komi í tillögunni. Hann skilji því áhyggjur Litla klúbbsins og annarra vegna málsins „Fyrirsjáanleg þörf fyrir svo mikið nýtt land er ekki lengur til staðar og því er ástæða til að draga úr þeim hugmyndum í nýju aðalskipulagi. Þegar aðalskipulag verður auglýst með formlegum hætti vænti ég þess að komnar verði fram breytingar sem draga verulega úr umfangi landfyllingar frá Breið að Akraneshöfn,“ segir Guðmundur.

 

Við þetta má bæta að nýverið var vígð ný og stór frystigeymsla HB Granda við Norðurgarð í Reykjavík. Á þeim tímapunkti sem Faxaflóahafnir og skipulagsyfirvöld á Akranesi ráðgerðu hina miklu landfyllingu ásamt Skarfatangahöfn, var gert ráð fyrir að landvinnsla HB Granda flyttist að nær öllu leyti á Akranes. Frá því var hins vegar horfið eins og menn þekkja og kristallaðist meðal annars í að ný frystigeymslu HB Granda hefur nú verið byggð í Reykjavík.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is