22. maí. 2003 11:29
Mikið magn fíkniefna fannst
Lögreglan á Akranesi hefur að undanförnu rannsakað mál þar sem ákveðnir aðilar hafa verið grunaðir um dreifingu fíkniefna í bænum.
Í gær var látið til skara skríða og voru tveir menn handteknir þar sem þeir voru að stíga út úr bifreið í bænum. Við leit á öðrum þeirra fundust um 40 grömm af hassi.
Einnig ráðist í húsleit, að undangengnum úrskurði héraðsdóms Vesturlands í íbúð í bænum og voru tveir til viðbótar handteknir þar. Við húsleitina fundust um 250 grömm af hassi, ofskynjunarsveppir og neysluáhöld.
Þá var gerð önnur húsleit síðar um daginn og fannst þá dálítið af amfetamíni auk neysluáhalda
Lögreglan í Reykjavík sendi leitarhund og tvo lögreglumenn til aðstoðar við leitina. Áttu hundurinn Barthes og þjálfari hans hvað stærstan þátt í að efnin fundust.
Tveir menn eru í haldi vegna málsins sem er í rannsókn