Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
07. ágúst. 2003 02:18

Sameining sunnan heiðar blásin af

Eins og fram hefur komið í Skessuhorni voru hafnar óformlegar viðræður um hugsanlega sameiningu sveitarfélaganna fjögurra í Borgarfirði sunnan Skarðsheiðar, þ.e. Skilmannahrepps, Innri-Akraneshrepps, Leirár- og Melahrepps og Hvalfjarðarstrandahrepps. Þær viðræður er nú farnar út um þúfur í bili a.m.k.
„Það er skemmst frá því að segja að hreppsnefnd Skilmannahrepps hefur hafnað því að fara í sameiningarviðræður við hin sveitarfélögin hér að svo stöddu,“ segir Hallfreður Vilhjálmsson, oddviti Hvalfjarðarstrandarhrepps. „Þetta urðu ákveðin vonbrigði, ekki síst í ljósi þess að það hafði komið fram vilji fyrir sameiningu á þessu svæði í skoðanakönnun sem gerð var samhliða sveitarstjórnarkosningunum í fyrra. Hin þrjú sveitarfélögin hafa margoft lýst yfir vilja til sameiningar en málin standa hinsvegar svona.“
Hallfreður segir ekki útilokað að Hvalfjarðarstrandahreppur, Innri-Akraneshreppur og Leirár- og Melahreppur fari í sameiningarviðræður án þátttöku Skilmannahrepps. „Menn hafa talað saman en það hefur ekkert verið ákveðið og heldur ekki lokað á neitt,“ segir Hallfreður.
Of mikill hraði
„Það er rétt að við höfnuðum áframhaldandi viðræðum með þeim hraða sem átti að kíla á þetta,“ segir Sigurður Sverrir Jónsson, oddviti Skilmannahrepps. Það voru aðilar sem vildu að það yrði búið að ganga frá sameiningu fyrir áramót. Við vildum frekar horfa til loka kjörtímabilsins og sjá hvaða lög verða sett um lágmarksstærð sveitarfélaga. Ef mörkin verða dregin við 1500 eða 2000 íbúa þyrfti þá að fara að huga að stærri sameiningu strax í kjölfar þessarar og okkur fannst það ekki skynsamlegt.“
Sigurður segir að því verði ekki neitað að málið snúist um peninga. „Það er allavega mín tilfinning. Það var fengið rágjafafyrirtæki til að skoða kosti og galla sameiningar fyrir átta árum og þá kom það út að það væri óhagstætt fyrir íbúa Skilmannahrepps að sameinast. Meðal annars var það niðurstaðan að nýtt sveitarfélag fengi minna út úr jöfnunarsjóði en þessi fjögur fá til samans. Þess ber þó að geta að það eru átta ár síðan þannig að það liggur ekki fyrir hvernig það kæmi út í dag. Í mínum huga er það hinsvegar klárt að ef hrepparnir sameinuðust myndi skerðast ýmis þjónusta sem við bjóðum upp á. Hér er lægra útsvar, lægri fasteignagjöld og ekkert sorphirðugjald svo dæmi sé tekið. Þá má geta þess að í sumar höfum við lagt bundið slitlag heim á hvern sveitabæ. Við vitum hvað við höfum en vitum ekki hvað við fáum. Þetta verður allt að vega og meta. Það má líka geta þess til gamans að á sínum tíma þegar Skilmannahreppur var einn af fátækustu hreppum landsins höfðu hinir ekki mikinn áhuga á okkur.“
Sigurður sagði hinsvegar að ekki væri búið að loka neinum dyrum. „Ég neita því ekki að það myndi henta mjög vel að sameina þessi fjögur sveitarfélög og það á örugglega eftir að gerast. Hinsvegar má spyrja sem svo að ef sú hreppsnefnd sem situr á hverjum tíma treystir sér til að reka sveitarfélagið eins og það er hvort það sé þá ekki í góðu lagi?“
Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is