04. ágúst. 2004 03:16
Ofnstoppi lokið í Sementsverksmiðjunni
Framleiðsla Sementsverksmiðjunnar hefur legið niðri undanfarnar vikur vegna sumarleyfa starfsfólks í framleiðsludeild og minni háttar viðhaldsframkvæmda. Stöðvunin hófst seinustu vikuna í júní og er nú þessa dagana verið að gangsetja ofn verksmiðjunnar og hefst þá framleiðsla sementsgjalls og sements að nýju.
Að söng Gunnars H Sigurðssonar tæknistjóra verksmiðjunnar var í framleiðslustöðvuninni notað tækifærið og farið í minniháttar viðhald á framleiðslutækjum. Skipt var um slitnar kæliplötur í gjallkæli og yfirfarinn hreinsibúnaður í rafsíu III við gjallbrennsluofn. Framleiðsla Sementsverksmiðjunnar hefur gengið vel það sem af er árinu og hafa afköst framleiðslutækja verið með besta móti og var birgðastaða sements góð fyrir ofnstoppið sem m.a. gerði svo langt sumarstopp kleift, að sögn Gunnars H Sigurðssonar, tæknistjóra Sementsverksmiðjunnar.
“Gert er ráð fyrir að sementssala á árinu verði um 100 þúsund tonn samanborið við um 85 þúsund tonna sementssölu í fyrra. Um 25% af sölunni fer í stórframkvæmdir á Austurlandi,” sagði Gunnar H Sigurðsson í samtali við Skessuhorn.