29. ágúst. 2004 09:48
Laugar að ungmennabúðum
UMFÍ og Dalabyggð hafa ákveðið að hefja rekstur Ungmenna- og tómstundabúða að Laugum í Dalasýslu, og munu Dalabyggð og Saurbæjarhreppur leggja til mannvirkin að Laugum til starfseminnar. Ungmenna- og tómstundabúðirnar eru fyrir ungmenni á aldrinum 14 – 15 ára (9. bekkur). Ungmennin munu dvelja að Laugum frá mánudegi til föstudags.
Gert er ráð fyrir að hægt verði að starfrækja Ungmenna- og tómstundabúðirnar í um 30 vikur á vetri hverjum. Miðað við fulla nýtingu geta 80 ungmenni dvalið í viku í senn að Laugum eða um 2400 ungmenni frá september – maí. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Herdís Sæmundardóttir formaður stjórnar Byggðastofnunar annars vegar og Björn B. Jónsson formaður UMFÍ, Sæmundur Kristjánsson oddviti Saurbæjarhrepps og Haraldur L. Haraldsson sveitastjóri Dalabyggðar hins vegar undirrituðu samning þann 11. ágúst s.l. um framlög til reksturs Ungmenna- og tómstundabúða að Laugum. Einnig undirritaði Ólafur Proppé rektor Kennaraháskóla Íslands samning um faglegt samstarf vegna Ungmenna- og tómstundabúðanna. Ungmenna– og tómstundabúðirnar verða reknar í anda hugmyndafræði UMFÍ. Þar verður lögð áhersla á tómstundir sem lífsstíl og sem mikilvægan þátt í forvarnarstarfi.