19. ágúst. 2004 10:25
Hætt kominn í sjó útaf Mýrum
Steinar Ragnarsson bifvélavirki í Borgarnesi var hætt kominn þegar hann féll í sjóinn af gúmmíbát sínum við Knarrarnes á Mýrum í fyrrakvöld. Var hann svamlandi í sjónum í 30-40 mínútur áður en honum tókst að ná landi. Steinar var einn á ferð á gúmmíbáti sínum með vistir út í Knarrarnes þegar óhappið átti sér stað; bátur hans kippist til og hann fellur útbyrðis. Hann var ekki með tengda taug í ádrepara mótorsins og því sigldi báturinn frá honum. Hann var íklæddur vöðlum og fylltust þær af sjó. Samt sem áður tókst honum að halda sér á floti og svamla í land á Knarrarnesi þar sem honum var komið til hjálpar.