25. ágúst. 2004 11:26
Rigningin í nótt glæðir laxveiðina
Formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur, Bjarni Ómar Ragnarsson sagði í morgun í samtali við Byljuna að rigningin sem féll í nótt glæði laxveiðina. Vatnsbúskapur í laxveiðiám hefur verið dapurlegur í sumar. Miklir þurrkar hafa komið niður á laxveiðinni, í sumar, þótt sumar ár hafi gefið ágætlega af sér. Þurrkarnir hafa gert það að verkum að lítið vatn er í mörgum ám, og laxinn auk þess latur við að taka vegna sólar og hita.
Bjarni segir að þótt ekki hafi mikið rignt í nótt, lífgi það uppá árnar. Hann segir að þeir í félaginu hafi verið að rifja upp rigningar í sumar. Hafi þeir komist að því að rignt hafi um 12. júní og tvo daga um verslunarmannahelgina. Síðan hafi ekki rignt aftur fyrr en í nótt. Rangárnar og Blanda eru í efstu sætum yfir veidda laxa í sumar en fast á hæla þeirra koma borgfirsku árnar; Norðurá, Þverá og Langá. Laxveiðivertíðin er nú óðum að styttast. Fyrstu ánum verður lokað um mánaðamótin, og svo hverri af annarri, fram í miðjan september þegar allri laxveiði verður hætt. Sjóbirting verður þó hægt að veiða til 20. október.