Forsíða
Auglýsing
Rss straumur af fréttum frá Skessuhorni
Lágnætti. Fjórði Laugardagur í Gormánuði
Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
03. nóvember. 2004 01:10

Réttlát skipting tekjustofna er forsenda sameiningar

Anna Kristinsdóttir hefur skrifað athyglisverða fréttaskýringu á vefinn timinn.is, þar sem hún fjallar um fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga sem lauk í gær. Á  ráðstefnunni var fjallað um afkomu sveitarfélaga og samhliða þeirri umræðu var rætt um tekjustofna sveitarfélaga.  Fram kom að fjárhagstaða margra sveitarfélaga er bág og yfir 70 sveitarfélög af 101 voru rekin með halla á árinu 2003. Í umræðu um afkomu sveitarfélaga á árinu 2003 kom fram að þótt fjárhagsstaða sveitarfélaganna sé mjög mismunandi þá áttu þau það öll sameiginlegt að hafa tekið að sér aukin verkefni þar sem ekki höfðu fylgt með sérstakir tekjustofnar. Þar á meðal eru verkefni sem tengjast rekstri grunnskóla en eru ekki lögbundin, eins og rekstur mötuneyta, vistun eftir að skóla lýkur og félagstarf skólabarna. 

Mikið var rætt á meðal sveitarstjórnarmanna um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga og hvort rétt hefði verið gefið í þeim efnum. Almennt voru menn á því að nauðsynlegt væri að ríkið kæmi að og leiðrétti það sem sem upp á vantaði til þess að sveitarfélögin væru betur í stakk búin til þess að halda úti þeirri þjónustu sem er nauðsynleg.  

Áhugavert var að hlýða á erindi Gísla Gíslasonar, bæjarstjóra Akraneskaupstaðar, þar sem hann fór yfir þær breytingar og kostnaðarauka sem orðið hefur á verkefnum sveitarfélaga.  Þannig hafa útgjöld sveitarfélaga vegna húsaleigubóta aukist stórlega. Kópavogur greiddi þannig u.þ.b. 23 milljónir í þennan málaflokk árið 1998 en greiddi árið 2003 rúmlega 80 milljónir. Reykjavík greiddi u.þ.b. 130 milljónir 1998 en um 340 milljónir árið 2003. Á sama tíma hefur ríkisvaldið minnkað framlag sitt til húsaleigubóta.

Kostnaður vegna barnaverndar í Kópavogi var árið 1995 u.þ.b. 28 milljónir en var um 80 milljónir árið 2003. Gísli tók einnig þætti eins og liðveislu, skipulagsmál, sorpmál og rekstur holræsa. Allir þessir málaflokkar eiga það sameiginlegt að kostnaður vegna þeirra hefur hækkað gífurlega á liðnum árum. Ástæður þessa er t.d. auknar skuldbindingar vegna EES samningsins, úttektar- og upplýsingaskylda sveitarfélaga og margskonar breytingar aðrar á rekstrarumhverfi þeirra.  

Þetta erindi sýndi að ekki er hægt að ganga endanlega frá tekjustofnum sveitarfélaga í eitt skipti fyrir öll. Nauðsynlegt er að yfirfara slík fjárhagsleg samskipti reglulega og  verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Bentu menn á að slíkt hefði síðast verið gert árið 1995.  

Á haustmánuðum var síðan tekið skref í átt að slíku samráði. Sameiginleg viljayfirlýsing  félagsmálaráðherra, fjármálaráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga var undirrituð þann 17. september s.l. um eflingu sveitarstjórnarstigsins. Hún felur m.a. í sér frekari yfirtöku og flutning verkefna svo og áform um sameiningu sveitarfélaga. Jafnframt felur hún í sér m.a. að skoða beri hvort rýmka beri heimildir sveitarfélaga til nýtingar núverandi tekjustofna og hvort til álita koma að marka sveitarfélögum nýja tekjustofna.  

Á fjármálaráðstefnunni kynntu fulltrúar sambandsins í tekjustofnanefnd starf nefndarinnar frá árinu 2003. Í máli þeirra sveitarstjórnarmanna sem til máls tóku eftir að farið hafði verið yfir starf nefndarinnar, kom í ljós að þessi mál eru nátengd, þ.e. núverandi fjárhagsstaða sveitarfélaga, yfirflutningur verkefna og frekari sameiningar.  

Það voru jafnframt skilaboð fundarins til ríkisvaldsins að sveitarstjórnarmenn væru ekki tilbúnir að kjósa um frekari sameiningar sveitarfélaga fyrr en gengið hefði verið frá réttlátari skiptingu tekjustofna á milli ríkis og sveitarfélaga.  

Það er því nauðsynlegt að bretta upp ermar ef takast á að kjósa um sameiningar í 80 sveitarfélögum þann 23. apríl n.k.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is