Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
05. júlí. 2013 06:15

Skiptar skoðanir um endurbætur í Skallagrímsgarði

Á fimmtudaginn í síðustu viku var kynningarfundur um áform Borgarbyggðar um endurbætur í Skallagrímsgarði. Um 60 manns mættu til fundarins sem fór fram í garðinum og var um upplýsandi fund að ræða. Töluverðar umræður spunnust um þau verkefni sem standa fyrir dyrum í garðinum og þær aðgerðir sem Samson Harðarson landslagsarkitekt lagði til í úttekt sinni á Skallagrímsgarði, sérstaklega hversu mikla grisjun hann leggur til að þurfi að framkvæma. Sumar af þeim tillögum sem lagðar eru til grundvallar í úttekt Samsonar hafa vakið nokkuð hörð viðbrögð meðal íbúa í bænum eins og lesa má í pennagrein Þorleifs Geirssonar sem birtist í Skessuhorni í síðustu viku. Aðrir mæla fyrir breytingum á garðinum, þó kannski ekki eins róttækum og lagt er til í úttekt Samsonar, og er dæmi um slíkt viðhorf að finna í grein Björns Bjarka Þorsteinssonar formanns byggðarráðs Borgarbyggðar á vef Skessuhorns sl. miðvikudag.

 

 

 

 

Þá hefur hópur íbúa hrundið af stað undirskriftasöfnun þar sem mótmælt er róttækum  breytingum í Skallagrímsgarði. Að sögn Geirlaugar Jóhannsdóttur, fulltrúa í sveitarstjórn Borgarbyggðar, og eins þeirra sem stendur að söfnun undirskrifta, álítur hópurinn að með róttækum breytingum sé átt við tillögur á borð við flutning Skátahússins og meiriháttar rask í trjágöngunum, beint innaf inngangi garðsins. Hún segir hópinn sem stendur á bak við undirskriftasöfnunina telja að vitaskuld sé full þörf á grisjun í garðinum, eins og átt hefur sér stað undanfarin ár, en einnig sé áhugi fyrir ýmsum tillögum Samsonar um t.d. plöntun fleiri skrautrunna og endurgerð styttunnar í gosbrunninum eftir Guðmund frá Miðdal. Geirlaug segir markmið hópsins að stofna innan skamms grasrótarfélag sem fái nafnið „Vinir garðsins“ og hefði það hlutverk að vinna að hag garðsins, aðstoða við t.d. grisjun, tiltekt á vorin og koma að ákvarðanatöku um mál sem snúa að Skallagrímsgarði.

 

Verðum að vanda okkur

Steinunn Pálsdóttir hefur frá árinu 1995 unnið við hirðingu Skallagrímsgarðs en hennar hlutverk hefur verið að hreinsa garðinn á vorin, snyrta beð, planta blómum, grisja og sinna almennri garðvinnu. Steinunn segir aðspurð um úttekt Samsonar að vissulega sé aðkallandi að gera ýmislegt í garðinum til að bæta hann og laga. „Eitt af mest aðkallandi verkefnum í garðinum er að setja upp gamla gosbrunninn aftur og laga frárennslið frá honum. Þá þarf nauðsynlega að drena svæði á norðvesturenda grasflatarinnar stóru sem alltaf er blautt en þar er líklega vatnsuppspretta. Ég held að það sem hafi farið fyrir brjóstið á fólki hafi verið orðalagið að grisja allt að helmingi trjáa í garðinum. Það þarf ekki endilega að gera til að bjarga honum, þó það þurfi að grisja eitt og eitt tré eins og gert hefur verið á hverju ári,“ segir Steinunn.

 

Hún segir hins vegar blóm þrífast ágætlega í garðinum í sumar í núverandi ástandi hans en varðandi aspargöngin umtöluðu segir hún að þau séu seinni tíma vandamál. „Þau mega alveg vera áfram næstu árin. Kannski mætti taka eina og eina ösp úr þeim, sérstaklega mjóu trén, en heildargöngin mættu halda sér.“ Steinunn segir garðinn afar vel sóttan af heimamönnum og fjölda gesta og segir hún að yfir sumartímann stoppi 2-3 rútur á dag við garðinn. „Allir sem hingað koma hafa látið í ljós ánægju með garðinn og telja hann með fallegustu stöðum í Borgarnesi. Við verðum því að vanda okkur afar vel,“ bætir Steinunn við.

 

Byggðarráð tekur ákvörðun

Samkvæmt upplýsingum frá Borgarbyggð hefur verið gefin 800.000 kr. heimild vegna endurbóta í Skallagrímsgarði á þessu ári og segir Björg Gunnarsdóttir, umhverfis- og landbúnaðarfulltrúi sveitarfélagsins, að ætlunin sé sú að nota upphæðina til að klára tillögugerð Samsonar og til grisjunar. Björg tekur fram að ekki sé búið að gefa heimild til framkvæmda en það er sveitarstjórn og byggðarráð í hennar umboði sem taka ákvörðun í málinu. Hún gerir ráð fyrir því að málið verði tekið fyrir á næsta fundi byggðarráðs sem er á fimmtudaginn.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is