Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
11. ágúst. 2013 08:01

Sjötta Ólafsdalshátíðin fer fram í dag

Í dag fer fram hin árlega Ólafsdalshátíð í Ólafsdal í Gilsfirði. Að hátíðinni stendur Ólafsdalsfélagið sem hefur það að markmiði að stuðla að endurreisn staðarins þar sem fyrsti bændaskóli landsins var starfræktur á árunum 1880-1907. Þetta er í sjötta skipti sem hátíðin fer fram en hún var fyrst haldin sumarið 2008. Að sögn Rögnvaldar Guðmundssonar formanns Ólafasdalsfélagsins á dalurinn sér merkilega sögu. Í honum er að finna fjölda menningarminja sem hafi töluverða þýðingu fyrir sögu Vesturlands og Breiðafjarðar og segir hann að félagið vilji eftir fremsta megni stuðla að varðveislu þeirra.

 

 

 

"Búnaðarskólinn í Ólafsdal var mikil miðstöð á sinni tíð. Skólann stofnaði Torfi Bjarnason árið 1880, sem sjálfur varð skólastjóri, og rak Torfi skólann fram til ársins 1907. Þangað innrituðust 154 nemendur af landinu öllu og lærðu allt það nauðsynlega fyrir komandi bústörf síðar meir. Eftir að skólahald hætti var búskapur stundaður í dalnum fram yfir 1970. Þá hóf Menntaskólinn við Sund í Reykjavík að nýta staðinn og rak þar svokallað skólasel fram undir 1990. Eftir það lagðist staðurinn í eyði. Skólahúsi staðarins var þó forðað frá eyðileggingu 1995-1996. Endurreisn staðarins hefst síðan með stofnun Ólafsdalsfélagsins árið 2007,” segir Rögnvaldur.

  

Merkilegur skóli

Torfi Bjarnason var merkilegur maður og frumkvöðull á sínu sviði hér á landi og segir Rögnvaldur að markmið Ólafsdalsfélagsins sé að endurreisa staðinn á þeim forsendum, sem nýsköpunar- og frumkvöðlasetur. ,,Smiðja var starfrækt í Ólafsdal meðan skólahald fór hér fram. Talið er að um 800 jarðyrkjuverkfæri hafi verið smíðuð meðan skólinn var starfandi, þar af 128 plógar, 107 herfi, 300 aktygi á hesta og 97 hestakerrur. Verkfærin voru seld um land allt og fylgdu skólapiltum að námi loknu.” Mjólkurhús, tóvinnuhús, hlaðið fjós og mörg önnur útihús voru einnig á staðnum sem og matjurtagarðar.

 

"Skólinn lagði einnig áherslu á að þjálfa nemendur sem kennara og sinntu margir nemendur skólans kennslu síðar meir. Vísir að kvennaskóla var einnig í Ólafsdal meðan búnaðarskólinn var starfræktur en allt að 15 vinnukonur störfuðu á staðnum yfir sumarmánuði við ýmis störf og verklega fræðslu á borð við ullarvinnu, prjóna og saumagerð, matreiðslu og ostagerð. Guðlaug Zakaríasdóttir, eiginkona Torfa, hafði umsjón með vinnukonunum og leiðbeindi þeim. Einnig komu til hennar stúlkur gagngert til að læra heimilisstörf, tóvinnnu, hannyrðir o.fl..”

 

Ýmsar framkvæmdir

Rögnvaldur segir að félagsmenn í Ólafsdalsfélaginu séu nú um 300 talsins. Markmið félagsins er að tvöfalda þá tölu á næstu 2-3 árum. "Ýmsar framkvæmdir hafa átt sér stað á starfstíma félagsins. Nýtt vatnsból hefur verið tekið í notkun í dalnum, nýjar vatnslagnir lagðar og lagður rafstrengur yfir Gilsfjörð og að skólahúsinu. Gamli matjurtagarðurinn hefur verið tekin í notkun og þá hefur heimtröð að hluta verið endurhlaðin en hún var eyðilögð um 1970. Þá hafa ýmsar endurbætur átt sér stað í skólahúsinu, t.d. lagðar þar nýjar hitalagnir í fyrra, stofur uppgerðar og unnið að endurbótum á eldhúsi.” Einnig hafa göngustígar um dalinn og næsta nágrenni verið kortlagðir á vegum félagsins svo og ræktunarminjar á svæðinu.

 

Endurreisn mjólkurhúss og fjóss

Stefna félagsins er sú að skólahúsið í Ólafsdal komist að fullu í rekstur árið 2015. Þar hefur verið opið um 5-6 vikur á sumrin frá árinu 2010 og hafa gestir átt þess kost að fræðast um sögu dalsins á söguspjöldum í húsinu. Jafnframt er hægt að ganga um 3 km fræðslustíg og eru upplýsingar um hann að finna á blöðum sem fá má í skólahúsinu. Einnig hafa verið haldnar myndlistasýningar í húsinu. ,,Þá höfum við hug á að endurreisa mjólkurhúsið og fjósið á staðnum. Tillögur eru um að mjólkurhúsið sem reist var árið 1888 verði baðhús og fjósið sem reist var 1895 verði fjölnota menningarhús. Báðar byggingar voru hlaðnar úr tilhöggnu grjóti undir skoskum áhrifum en Torfi dvaldi um tíma í Skotlandi og hefur vafalaust kynnst hleðslufræðunum þar. Þök þessara bygginga eru horfin en veggirnir standa enn uppi.”

 

Hvetur flesta til að heimsækja Ólafsdal

Liður í því að halda merkjum Ólafsdals á lofti er Ólafsdalshátíðin sem Ólafsdalsfélagið stendur fyrir á hverju sumri, annan sunnudag í ágúst. Einnig hefur félagið á prjónunum að halda sérstakan dag fyrir gamla menntskælingja úr MS sem dvöldu í skólaselinu og er stefnt að því að fyrsti MS dagurinn fari fram á næsta ári að sögn Rögnvaldar. ,,Stærsti viðburðurinn er hins vegar Ólafsdalshátíðin sem fram fer nú um helgina, 11. ágúst. Efnt verður til fjölbreyttrar dagskrár þar sem tónlist, leikur, útivera og fróðleikur kemur við sögu. Ég vil hvetja sem flesta til að leggja leið sína í Dalina og heimsækja Ólafasdal og kynnast þar með sögu hans og starfi Ólafsdalsfélagsins,” segir Rögnvaldur en hátíðin hefst á hádegi í dag. „Upphitun“ var hins vegar í gær með gönguferð á fjallsbrúnum umhverfis Ólafsdal og með ullar- og tóvinnunámskeiði fyrir börn. Lögð var áhersla á fjölskylduvæna hátíð.

 

Sjá dagskrá hátíðarinnar hér.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is