13. ágúst. 2013 12:37
Páll Bergþórsson veðurfræðingur er níræður í dag. Hann fæddist og ólst upp í Fljótstungu í Hvítársíðu í Borgarfirði. Páll hefur á löngum ferli sínum sem veðurfræðingur orðið hvað vinsælastur veðurspámanna meðal þjóðarinnar. Þrátt fyrir háan aldur á veðrið enn hug Páls, en hann heldur úti facebooksíðu og gerir tíu daga spár fram í tímann. Páll var veðurstofustjóri um tíma og flutti veðurfréttir í sjónvarpi í 23 ár. Auk þess flutti hann mörg erindi í útvarpi um veður og veðurfar. Segja má að Páll hafi verið frumkvöðull um tíðina en hann lauk prófi í veðurfræði í Stokkhólmi 1949. Í framhaldsnámi sínu í Stokkhólmi á sjötta áratugnum vann hann að undirbúningi fyrstu spánna sem gerðar voru í tölvum. Þá hefur Páll á undanförnum árum kannað loftslagsbreytingar og leitað skýringa á þeim.