21. ágúst. 2013 12:01
Þessa dagana er að hefjast hér á landi tökur á norskri bíómynd, Dead Snow II, sem eins og nafnið gefur til kynna er framhald nýlegrar kvikmyndar sem Norðmenn gerðu og öðlast hefur miklar vinsældir. Um svokallaðar sombie-myndir er að ræða, það er að uppvakningar koma mikið við sögu og eru nánast í aðalhlutverki. Félagsheimili Umf. Drengs í Kjós verður meðal tökustaða við gerð myndarinnar og þessa dagana er einmitt verið að flytja muni úr Stríðsminjasafninu á Hlöðum í nágrannasveitarfélagið. Uppvakningarnir eru einmitt þýskir nasistar úr seinna stríði sem leita hefnda eftir að hafa misst allt stríðgóssið til andstæðinganna. Fjöldi Íslendinga koma að tökum hér á landi, meðal annars margir aukaleikarar, en Sagafilm sér um kvikmyndatöku hér á landi. Meðal þeirra uppvakninga sem verða með myndavélarnar nánast í andlitinu er ungur Akurnesingur, Guðbergur Jens Haraldsson.
Rætt er við Guðberg í Skessuhorni sem kom út í dag.