25. ágúst. 2013 04:36
Faxaflóasundi lauk laust fyrir klukkan 16 í dag. Það eru félagar í Sundfélagi Akraness sem syntu frá Reykjavíkurhöfn yfir á Langasand á Akranesi, alls um 22 kílómetra leið. Sundið fer jafnan þannig fram að einn sundmaður syndir í einu í fylgd hafnsögubáts frá Faxaflóahöfnum og björgunarbáts frá Björgunarfélagi Akraness. Sundið er áheitasund og höfðu bæði einstaklingar og fyrirtæki heitið duglega á sundmennina. Faxaflóasund er meira þrekvirki en margir gera sér grein fyrir. Vindur, alda og kuldi geta tekið á á leiðinni. Að þessu sinni syntu 15 ungmenni yfir flóann, það yngstai 14 ára. Sterk alda varð til þess að nokkrir urðu sjóveikir og reyndi sundið því talsvert á unga fólkið að þessu sinni. Sökum sjóveiki treystu þannig nokkrir sér ekki til að synda síðasta spölinn í land. Þá var heitu sturtunni á Langasandi sleppt að þessu sinni og dreif sundfólkið sig beint til búningsklefa að landtöku lokinni réttum sex klukkutímum eftir að sundið hófst.