Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
29. ágúst. 2013 03:03

Styrktarmót fyrir Valdísi Þóru sem stefnir á Evrópumótaröðina

Valdís Þóra Jónsdóttir, sem verið hefur fremsti kylfingur Leynis mörg síðustu árin, segist fara inn í haustið og veturinn full keppnisskaps og áhuga fyrir íþróttinni. Hún hefur sett stefnuna á úrtökumót fyrir Evrópumótaröðina sem haldið verður í Marokkó í desember. Í samtali við Skessuhorn segist Valdís Þóra reyndar stefna ákveðið að því að verða atvinnumaður í golfi og þar með fórna áhugamannaréttindum um tíma. Verkefni þessu tengt séu mjög kostnaðarsöm en hún hafi sterkt bakland sem hennar klúbbur Leynir er og fjölskyldan, auk þess sem hún treysti á stuðning fyrirtækja. Sunnudaginn 8. september verður haldið styrktarmót á Garðavelli til stuðnings Valdísi Þóru. Guðmundur Sigvaldason framkvæmdastjóri Golfklúbbsins Leynis segir að klúbburinn og klúbbfélagar standi heilshugar að baki Valdísi Þóru og hún verði studd eins og mögulegt er, enda Valdís einn mesti afreksmaður klúbbsins til margra ára, fjórum sinnum hafi hún verið kjörin íþróttamaður Akraness og sé margfaldur Íslandsmeistari í sinni íþrótt. Vandað verður mjög til styrktarmótsins, að sögn Guðmundar, verðlaun vegleg og þessa dagana er aflað styrkja hjá fyrirtækjum vegna mótsins. Frjáls framlög eru vel þegin en allur hagnaður af mótinu rennur óskiptur til Valdísar Þóru vegna þeirra verkefna sem hún er að ráðast í.

 

  

Mesta áskorun kvenkylfings á Íslandi

Þau verkefni sem Valdís Þóra hefur ákveðið að ráðast í er mesta áskorun kvenkylfings á Íslandi um þessar mundir. Rúmlega 300 kvenkylfingar munu á úrtökumótunum í Marokkó í desember berjast um 30 sæti sem gefa beinan rétt til þátttöku í Evrópumótaröðinni á næsta ári, en nokkrum sem þar koma næst veitist réttur til að keppa á einstökum mótum í mótaröðinni. Valdís segist hafa fulla trúa á því að henni takist að koma í gegnum úrtökuna og á lokahring úrtökumótsins, en keppendur þurfa að fara í gegnum þrjár síur áður. Valdís Þóra segist vera í góðu formi um þessar mundir og hún eigi mikið inni. „Leikskipulagið hefur brugðist mér aðeins á mótunum hér heima í sumar, en heilt yfir hef ég verið að spila vel. Nú er bara að æfa vel í haust,“ segir Valdís Þóra. Aðspurð segir hún að það verði þó ekki gott að æfa hérna heima og því ætli hún að fara til Florida og æfa þar í tvo mánuði.

 

Guðmundur Sigvaldason framkvæmdastjóri Leynis segir að allt kapp verði lagt á að styðja við Valdísi Þóru, enda vitað að henni er fjárvant eftir að hafa nýlokið háskólanámi, en Valdís hefur numið í Texas síðustu fjóra vetur auk þess að æfa og keppa í háskólagolfinu. Guðmundur segir að vonir standi til að styrktarmótið fari langt með að skapa þann bakhjarl fyrir hana sem þarf, en lágmarkskostnaður vegna Marokkó í desember er ein milljón króna, auk þess sem peninga vantar fyrir hana til uppihalds við æfingar á Florida fyrir mótið í Marokkó. Valdís Þóra segir að þegar ráðist sé í svona verkefni verði það eins og að reka fyrirtæki, en hún stefni einbeitt að því að komast í atvinnumennskuna og sé tilbúin með áætlun í því sambandi. 

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is