30. ágúst. 2013 11:01
Í gær fór fram svokallað Langasandssprell á Akranesi þar sem nýnemar, fæddir 1997, voru teknir inn í fullorðinna manna hóp nemenda við Fjölbrautaskóla Vesturlands. Nokkur ár eru síðan hinar eiginlegu busavígslur lögðust af og er nýnemum nú boðið að taka þátt í vígsluathöfn af fúsum og frjálsum vilja. Góð mæting var á Langasandi og mættu margir nýnemar og tóku þátt í athöfninni. Þá var fjöldi eldri nemenda einnig á svæðinu til að fylgjast með þrátt fyrir talsvert mikla úrkomu. Voru busarnir látnir hlaupa frá skólabyggingu FVA að Langasandi þar sem þeim var gert að renna sér á blautum plastdúki, skríða í þara og liggja í sandinum. Að lokum hlupu allir busarnir í sjóinn áður en þeir hneigðu sig fyrir áhorfendum.