30. ágúst. 2013 06:00
Í júlímánuði síðastliðnum fannst merkilegur steinn þegar rannsakaðar voru fornleifar við Bæ í Bæjarsveit í Borgarfirði. Steinninn sem um ræðir er með tilhöggnum krossi og bendir lögun krossins og fundarstaðurinn til þess að steinninn sé frá miðöldum. Aðeins þrír aðrir tilhöggnir steinar eru til varðveittir hér á landi frá miðöldum, fyrir utan þrjá steinkrossa sem fundust við uppgröft í Seyðisfirði fyrir nokkrum árum. „Steinninn í Bæ er líklega úr inngangi í hús (portal), frekar en legsteinn sé horft til lögunar hans. Engin mannabein fundust heldur nærri þeim stað sem hann var á. Þar fundust hins vegar merki um íveruhús, m.a. för eftir tunnur eða sái, sem virðast hafa staðið mjög nærri eða fast við gömlu kirkjuna. Svona steinar voru notaðir til að merkja helgan stað, eins og kirkjur eða klaustur, við vígslu þeirra. Þess vegna gefur steinninn sterka vísbendingu um staðsetningu kirkju eða klausturs í Bæ á miðöldum,“ segir Steinunn J Kristjánsdóttir fornleifafræðingur.
Hulda Guðmundsdóttir á Fitjum segir að Pílagrímafélagið hafi mikinn áhuga á fornleifauppgreftri í Bæ og muni beita sér fyrir því að frekari rannsóknir fari þar fram næsta vor.