Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
04. september. 2013 05:12

„Ætla sér að vera í efstu deild í mörg ár“

Eins og greint hefur verið frá náði meistaraflokks lið kvenna hjá ÍA að tryggja sér sæti í Pepsi deild kvenna á næsta ári í gærkvöld þegar liðið spilaði síðari undanúrslitaleik sinn gegn KR á KR vellinum í Reykjavík. Leikurinn fór 2:0 fyrir KR en það dugði þeim röndóttu ekki til þar sem Skagakonur unnu fyrri leik liðanna 3:0, og því samanlagt 3:2. ÍA leikur því í Pepsí deildinni næsta sumar. Í hinum úrslitaleiknum áttust við Fylkir og Grindavík og voru það Fylkiskonur sem höfðu betur, en þær unnu í gær 3:2 á heimavelli, samtals 6:3. Það verða því ÍA og Fylkir sem mætast í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í 1. deild kvenna. Liðin léku í sama riðli í sumar og mættust tvisvar. Fyrri leikur þeirra, sem fram fór á Akranesi, endaði með jafntefli 1:1, en sá síðari í Árbænum endaði með stórsigri Fylkiskvenna, 7:1. Skagakonur eiga því harma að hefna í úrslitaleiknum sem fram fer á laugardaginn kl. 14. KSÍ á eftir að ákveða hvar leikurinn fer fram, en verður leikin á hlutlausum velli. Skessuhorn mun greina frá leikstað þegar hann hefur verið ákveðinn.

 

Þjálfarateymi liðisins, Margrét, Magnea og Steindóra. Ljósm. sv.
Fengu einstakan stuðning í sumar

Magnea Guðlaugsdóttur, þjálfari liðsins, segir að tímabilið í sumar hafi gengið afar vel hjá liðinu sem tapaði einungis þremur leikjum og gerði eitt jafntefli. „Við gerðum jafntefli við Fylki og töpuðum svo fyrir þeim og Frömmurunum. Þetta voru ekki alltaf fallegir leikir sem við unnum en við gerðum alltaf það sem til þurfti. Þegar fjórir leikir voru eftir vorum við búnar að tryggja okkur sæti í úrslitunum. Þetta var glæsilega gert hjá okkur.“

 

Síðasta sumar var ÍA hársbreidd frá því að komast upp um deild en að mati Magneu munaði um í sumar að liðið náði að sigra í lélegu leikjunum sínum. „Þessir lélegu leikir töpuðust í fyrra eða duttu í jafntefli, sem var sárt. Við unnum þá leiki í sumar og það þarf stundum heppni með efstu liðin. Þó er ég ekki að segja að það hafi verið heppni hjá okkur að komast upp. Mér fannst nokkrir leikir vera þannig að við gerðum það sem til þurfti en ekkert meira en það,“ segir Magnea.

 

Á undan áætlun

Samkvæmt Magneu var stemningin í liði ÍA mjög góð í sumar. „Þessar stelpur þekkjast vel og vita kosti og galla hvorrar annarrar. Þær eru í mjög góðu jafnvægi og eru mjög samheldinn hópur. Ef stemningin væri léleg þegar svona gengur hefði maður ekki gaman af fótbolta. Stelpurnar hafa haft mjög gaman af þessu.“ Kjarni liðsins er sá sami og frá því að uppbyggingarátak var sett af stað þar sem markmiðið var að komast í efstu deild 2014. „Þegar farið var að spá í það fyrir alvöru að gera þetta lið að úrvalsdeildarliði fyrir fimm árum, átti að fara upp með hóp sem virkilega væri tilbúinn. Margar af stelpunum eru úr þeim hópi sem ætlað var að klára þetta alla leið. Að halda þessum hóp saman hefur verið virkileg barátta, en það hjálpar mjög mikið að hafa hóp sem þekkist vel. Einnig er það einstakt að við séum með hreinræktað Skagalið. Í liðinu eru bara stelpur frá Akranesi.“

 

Magnea segir markmiðið að vera í efstu deild til margra ára. „Ef við hefðum ekki farið upp yrðum við í svakalegum vandræðum með að halda hópnum saman. Það er þó eins gott að við höldum hópnum saman því við ætlum okkur ekki að vera í efstu deild í eitt ár. Við ætlum að vera þarna í mörg ár og það gerist bara ef við náum að halda fólkinu okkar.“

 

Hefði getað grátið

Magnea telur að styrkja þurfi liðið fyrir næsta tímabil því mikið bil sé á milli deilda. „Fyrst og fremst þurfum við að halda hópnum og byggja liðið upp í kringum þær.“ Stuðningurinn sem liðið hlaut í sumar hjálpaði einnig mikið til. „Sá stuðningur sem við fengum í sumar og sérstaklega í þessum tveimur leikjum var með ólíkindum. Ég var ekki bara klökk heldur hefði ég getað farið að hágrenja. Í seinni leiknum gegn KR áttum við stúkuna í Frostaskjóli og okkar fólk söng mun hærra en KR-ingarnir. Það er ekki spurning að stuðningurinn hefur hjálpað til, sérstaklega hérna heima. Þá rúlluðum við yfir þær og þær áttu ekki séns. Stelpurnar eiga eftir að lifa á þessu þangað til þær verða gamlar og með fléttur,“ segir Magnea og bætir að lokum við: „Það er alveg einstakt hvað við fengum góðan stuðning og ég elska alla Skagamenn.“

 

Guðrún Þórbjörg Sturlaugsdóttir, fyrirliði.
Ungur og samheldinn hópur

Fyrirliði liðsins, Guðrún Þórbjörg Sturlaugsdóttir, segði í samtali við Skessuhorn vera himinlifandi yfir árangrinum og hafi verið kærkomið að upplifa fagnaðarlætin þegar flautað var til leiksloka í gær. „Við þurftum að fá þessa útrás enda búnar að dreyma um það lengi að komast í úrvalsdeildina. Í fyrra vorum við einu stigi frá því að komast í úrslitakeppnina sem var frekar ömurlegt og því var það frábær og langþráð stund þegar leikurinn kláraðist á móti KR. Við erum allar sem ein búnar að vera stefna að því að komast upp um deild í sumar og því var mjög gaman ná þessu markmiði,“ segir Guðrún sem var einnig gríðarlega ánægð með þann stuðning sem liðið fékk á KR vellinum. „Þegar ég leit yfir stúkuna sá ég að það voru sennilega fleiri Skagamenn á vellinum en KR-ingar. Þessi stuðningur skipti okkur miklu máli, en örugglega hefur reynt taugar margra stuðningsmanna okkar undir lok leiksins,“ bætir hún við kímin í bragði.

 

Búast má við hörkuleik í úrslitaleiknum á laugardaginn á móti Fylki að mati Guðrúnar. „Fylkir er með rosalega sterkt lið og á klárlega heima í úrvalsdeildinni með okkur. Það verður gaman að fá að spila við þær aftur og gera betur en síðast þegar við lékum við þær. Þetta er leikur sem við ætlum okkar sjálfsögðu að vinna.“

 

Guðrún segir að frábær liðsandi sé búinn að vera í hópnum í sumar og er hann mjög samheldinn. „Við erum allar uppaldar Skagastelpur og höfum spilað saman upp yngri flokkana. Því þekkjum við hvor aðra mjög vel og það veitir okkur styrk. Liðið er afar ungt, en sem dæmi er bara þrjár eldri en tvítugt í liðinu, ég, Ingunn og Helga Sjöfn. Restin er yngri en tvítugt.“ Guðrún dregur ekkert undan þegar talið berst að keppni í efstu deild og segir tilhlökkun ríkja í hópnum að takast á við það verkefni. „Helga og Ingunn eru þær einu af okkur sem leikið hafa í efstu deild, þannig að flestar okkar vita ekki hvernig það er að leika þar. Það breytir því þó ekki að við erum tilbúnar í slaginn á næsta ári.“

 

Ingunn Dögg Eiríksdóttir.
Misstum aldrei trúna

Ingunn Dögg Eiríksdóttir hefur verið fastamaður í liði Skagakvenna í sumar en hún, ásamt Helgu Sjöfn Jóhannesdóttur, eru einu leikmenn liðsins sem léku með því þegar það lék í úrvalsdeild síðast árið 2005. „Það er frábært að ná þessum árangri og ríkir mikil gleði í hópnum. Við erum með mjög ungt lið og finnst mér árangurinn enn betri í því ljósi. Allar erum við uppaldar á Akranesi og erum við til dæmis eina liðið í úrslitakeppninni sem ekki er með erlendan leikmann innan sinna raða. Þetta sýnir styrk kvennaknattspyrnunnar á Skaganum,“ segir Ingunn sem lofar þjálfarateymi liðsins. „Þjálfararnir hafa náð að halda hugum okkar við efnið í sumar og það hefur gert það að verkum að við misstum aldrei trúna á það að við myndum ná að klára verkefnið.“

 

Hún kveðst hlakka til að mæta liði Fylkis í úrslitaleiknum á laugardaginn og segir hópinn tilbúinn að kljást við Árbæinga í þriðja skipti í sumar. „Við munum gera okkar besta á laugardaginn og að sjálfsögðu hafa gaman af leiknum. Þetta eru mjög jöfn lið, þrátt fyrir að við höfum átt mjög ólíka leiki við þær í sumar. Ég vil hvetja alla Skagamenn til að mæta á leikinn og styðja við bakið á okkur líkt og í báðum leikjunum við KR, sá stuðningur skiptir okkur miklu máli.“

 

Ingunn segir ljóst að langtímaplan ÍA hafa við að móta meistaraflokkslið á grunni þess kjarna leikmanna sem nú myndar það. „Við snérum aftur til leiks í fyrra eftir tveggja ára hlé og vorum við þá hársbreidd frá því að komast í úrslitakeppnina. Markmiðið var alltaf að tryggja sér sæti í úrvalsdeild 2014 og sýnir liðið því sterkan karakter að ná því markmiði. Í hópnum eru afar efnilegir leikmenn sem eiga eftir að bæta sig enn frekar á næstu árum, sérstaklega þegar við munum nú kljást við bestu liðin á Íslandi á næsta tímabili. Það að eiga lið í efstu deild mun líka hvetja enn frekar þær stelpur sem eru að banka á dyrnar í meistaraflokki. Framtíðin er því björt í kvennaknattspyrnunni á Akranesi.“

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is