Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
05. nóvember. 2013 09:01

Franskt þema á Rökkurdögum í Grundarfirði

Hátíðin Rökkurdagar er orðin fastur liður í menningarlífi Grundfirðinga. Þeir hefjast að þessu sinni á morgun, miðvikudaginn 6. nóvember, og standa til fimmtudagsins 14. nóvember. Dagskrá liggur nú fyrir en franskur bragur verður á hátíðinni að þessu sinni. Meðal annars er von á franska sendiherranum í heimsókn á hátíðina og löndum hans sem starfa hér á landi, auk þess sem undir lok Rökkurdaga koma í heimsókn til Grundarfjarðar sérstakir gestir bæjarins frá vinabænum Paimpol í Frakklandi.

Rökkurdagar byrja með fyrirlesti Guðrúnar Nínu Petersen veðurfræðings frá Veðurstofu Íslands sem haldinn verður í Bæringsstofu og ber yfirskriftina, Ég elska þig stormur. Á næsta degi, þ.e. á fimmtudaginn, verður síðan meðal atriða sýning frá ljósmyndasamkeppni í Sögumiðstöðinni, Ostaskólinn mætir með franska osta í Samkomuhúsið og Friðrik Dór skemmtir á kaffihúsakvöldi FSN.

Á föstudag og laugardag heldur síðan franska þemað áfram í viðburðum á Rúben og Hótel Framnesi, auk þess sem ball verður á Ruben.

 

Sunnudaginn 10. nóvember verður harmonikkuball á dvalarheimilinu Fellaskjóli, ásamt opnu húsi og kaffihlaðboði.

 

Á mánudag verður upplestur við kertaljós á norrænni bókasafnaviku í Sögumiðstöðinni.

 

Á þriðjudag verða skátarnir með kynningu á Boule-leik í safnaðarheimilinu, sem er franskur leikur í anda boccia. Þann dag verða Þröstur Leó og Gói með fjölskyldusýninguna Gói og baunagrasið í Samkomuhúsinu.

 

Miðvikudaginn 13. nóvember verður m.a. á dagskrá Rökkurdaga sýningin franskir sjómenn við Íslandsstrendur opnuð í Markaðnum. Þar heldur María Óskarsdóttir erindi um franska sjómenn við Íslandsstrendur með áherslu á sögur frá Grundarfirði.

 

Á fimmtudeginum síðasta degi Rökkurdaga verða síðan tónleikar Tónlistarskóla Grundarfjarðar í samkomusal FSN.

 

Heimsókn frá vinabænum

Eins og áður segir kemur hópur frá vinabænum Paimpol í Frakklandi í heimsókn til Grundarfjarðar dagana 12.- 16. nóvember. Það er í lok Rökkurdaga og reyndar í byrjun kvikmyndahátíðarinnar Northern Wave sem byrjar strax í framhaldinu, eins og kynnt var í Skessuhorni nýverið. Alda Hlín Karlsdóttir menningarfulltrúi Grundarfjarðar segir að í tilefni Rökkurdaga hafi vinir þeirra í Paimpol ákveðið að koma í heimsókn. „Þetta er að frumkvæði Jean-Yves bæjarstjóra og úr varð að fjögurra manna hópur kemur, einn starfsmaður bæjarins og þrír frá Grundapol, vinabæjarfélaginu. Í hópnum eru Dominique Sicher, France LeBohec, Claudine Pancerolli og Marie-Madeleine Geffroy. Þau lenda um miðjan dag þann 12. nóvember og setja þá stefnuna á Grundarfjörð. Gestirnir munu gista í heimahúsum og hafa nokkrir bæjarbúar boðist til að hýsa þá. Þeir verða viðstaddir opnun sýningar um frönsku sjómennina á miðvikudag og föstudaginn 15. nóvember byrjar Northern Wave kvikmyndahátíðin. Við tengjum Rökkurdagana við Northern Wave með því að bjóða upp á franska tónlist á fiskisúpukvöldinu laugardaginn 16. nóvember. Þá kemur hljómsveitin Belville og leikur sína frönsku tóna. Þetta er hljómsveit sem samanstendur af frönsku kennurum á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Alda Hlín Karlsdóttir menningarfulltrúi Grundarfjarðar. Hún segir nánari dagskrá fyrir hópinn í smíðum en eins og áður segir er einnig vænst komu franska sendiherrans um þær mundir sem gestirnir frá vinabænum Paimpol verða á ferðinni.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is