Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
22. nóvember. 2013 10:55

Skora á ráðherra að standa vörð um háskólana í Borgarbyggð

Um 200 manns mættu til íbúafundar um málefni háskólanna í Borgarbyggð sem fram fór í Hjálmakletti í Borgarnesi í gærkvöldi þar sem framtíð þeirra var rædd með málefnalegum og hreinskiptum hætti. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra var viðstaddur fundinn. Fundurinn hófst með fimm framsöguerindum. Þau fluttu Páll S. Brynjarsson sveitarstjóri Borgarbyggðar, Vilhjálmur Egilsson rektor Háskólans á Bifröst, Björn Þorsteinsson aðstoðarrektor Landbúnaðaráskóla Íslands, Vífill Karlsson hagfræðingur hjá SSV og Helenu Guttormsdóttir námsbrautastjóra við LbhÍ. Einnig flutti menntamálaráðherra sjálfur ávarp að loknum framsögum þar sem hann rakti áherslur sínar í þeirri stefnumótunarvinnu um framtíð vísinda- og háskólastarfs í landinu sem unnið er að í ráðuneyti hans.

 

 

Erindin voru lífleg og drógu framsögumenn fram stóru línurnar í málefnum skólanna. Í erindi Páls sveitarstjóra kom m.a. fram samfélagsleg þýðing háskólanna fyrir Borgarbyggð og lagði hann þunga áherslu á að samdráttur í starfsemi þeirra myndi hafa mjög neikvæðar afleiðingar fyrir sveitarfélagið og búsetuskilyrði á svæðinu. Vilhjálmur á Bifröst sagði mikilvægt að í þeim breytingum sem eru í burðarliðnum yrði brýnt að áfram yrði rekinn sjálfstæður háskóli á Bifröst, enda liti hann svo á að skólinn sé ekki rekin fyrir neina gustuk frá ríkinu. Þar færi öflugur skóli sem væri nauðsynlegur íslensku samfélagi. Sameining við aðra skóla væri varasöm að hans mati og líkti hann t.d. hugmyndum um sameiningu Háskólans á Bifröst og Háskólans í Reykjavík við það að sameina Bláa Lónið og sundlaugina í Borgarnesi. Nemendahópar skólans væru ólíkir hver á sinn jákvæða hátt og væru íslensku samfélagi nauðsynlegir hvor á sinn máta. Þá kom fram í framsögu Björns Þorsteinssonar við LbhÍ að ekki yrði lengur búið við núverandi fyrirkomulag í skipulagi Landbúnaðarháskóla Íslands og væri ekki síst breytinga þörf til að ráða bug á þeim rekstrarvanda sem skólinn hafi glímt við í áraraðir. Þar ættu menn að skoða öll tækifæri sem bjóðast til að efla skólann.

 

Ánægður með fundinn

Fram kom í ávarpi Illuga Gunnarssonar að hann vill efla hlut vísinda- og háskólastarfs í landinu í takt við þær alþjóðlegu kröfur sem gerðar eru til slíks starfs nú á dögum. Um leið þyrfti að skoða alvarlega leiðir til að nýta betur þá fjármuni sem ríkið legði í málaflokkinn svo þeir geti nýst sem best. Minnti hann fundarmenn á að enn lægju ekki fyrir neinar tillögur um breytingar á skipan háskólamála í landinu og boðaði hann að gott samráð yrði haft við aðstandendur skólanna og hagsmunaðila í framtíðarstefnumótun skólanna í Borgarbyggð. Sjálfur kvaðst Illugi í samtali við Skessuhorn í fundarlok vera ánægður með fundinn, þær hreinskiptu umræður sem fram hafi farið og mætingu heimamanna. Ekki gat hann sagt á þeirri stundu hvenær fyrstu tillögur yrðu kynntar í málefnum háskólanna en það myndi verða gert um leið og þær lægju fyrir. Lýsti hann svo vilja sínum um að ná fram niðurstöðu í málinu sem allir hlutaðeigandi aðilar gætu sætt sig við.

 

Sjálfstæði skólanna varið

Að erindum lokum fóru fram umræður og kváðu ellefu manns sér hljóðs. Nær allir fundarmenn sem til máls tóku lýstu efasemdum sínum um hugmyndir sem hafa verið í umræðunni, t.d. þá hugmynd að sameina bæri LbhÍ og Háskóla Íslands. Sjálfstæði LbhÍ og Háskólans á Bifröst yrði að verja og um leið þyrfti að tryggja að yfirstjórn skólanna verði áfram hjá þeim sjálfum. Í lok fundar lagði Páll S. Brynjarsson sveitarstjóri fram ályktun um málefni háskólanna sem fundarmenn samþykktu undir dynjandi lófataki. Hana má lesa hér:

 

Ályktun fundarins

„Íbúafundur haldinn í mennta- og menningarhúsinu Hjálmakletti í Borgarnesi fimmtudaginn 21. nóvember 2013 skorar á ríkisstjórn Íslands og mennta- og menningarmálaráðherra að standa vörð um starfsemi Háskólans á Bifröst og Landbúnaðarháskóla Íslands og leita allra leiða til að efla starfsemi þeirra frekar.

Það er ljóst að sá niðurskurður í fjárveitingum til starfsemi skólanna sem fram kemur í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014 mun leiða til samdráttar í starfi þeirra. Fundurinn leggur þunga áherslu á að skólunum verð tryggt fjármagn til þess að þeir geti staðið undir hlutverkum sínum.

Landbúnaðarháskóli Íslands varð til árið 2005 við sameiningu Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Rala á Keldnaholti og Garðyrkjuskólans á Reykjum. Íbúafundurinn leggur áherslu á að stjórnvöld heimili skólanum að ljúka þeirri sameiningu og tryggi þannig rekstrargrundvöll skólans til framtíðar.

Fundurinn varar eindregið við þeim hugmyndum að sameina háskóla á landsbyggðinni háskólum á höfuðborgarsvæðinu og auka þannig miðstýringu háskólanáms hér á landi.  Tryggja þarf rekstrargrundvöll og sjálfstæði Háskólans á Bifröst og Landbúnaðarháskóla Íslands.

Íbúafundurinn ítrekar mikilvægi þess að stjórnvöld hafi samráð við sveitarstjórn Borgarbyggðar og atvinnuvegina þegar kemur að því að taka ákvörðun um starfsemi háskólanna í héraðinu enda hefur sveitarfélagið lagt mikið af mörkum til uppbyggingar á þjónustu fyrir nemendur skólanna.

Háskólarnir í Borgarbyggð hafa undanfarin áratug verið einn helsti vaxtabroddurinn í þeirri uppbyggingu sem átt hefur sér stað í Borgarbyggð og á Vesturlandi öllu. Öflug starfsemi skólanna skapar sóknarfæri fyrir allt Vesturland, því skiptir afar miklu máli að stjórnvöld standi vörð um starfsemi þeirra og tryggi þeim fjármagn til að þess að þeir geti sinnt sínu hlutverki.“ 

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is