Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
04. desember. 2013 07:00

Segir meiri kröfur gerðar til framhaldsskólanemenda í Noregi en hér heima

Það leikur lítill vafi á því að hugur margra Íslendinga hefur undanfarin ár staðið til þess að flytja erlendis. Þar hefur Noregur verið ofarlega á blaði hjá mörgum. Ung kona úr Stykkishólmi hefur prófað að búa í Noregi þar sem hún stundaði framhaldsskólanám og útskrifaðist í vor með stúdentspróf. Nú í haust hefur Sylvía Ösp Símonardóttir dvalið hér heima á Íslandi eftir tveggja ára dvöl á norskri foldu. Strax á nýju ári ætlar hún út aftur.

 

Sylvía lauk stúdentsprófi í vor úti í Noregi. „Það var nú í maí. Mér fannst rosalega skemmtilegt að verða stúdent í Noregi, þau eru með allt örðuvísi hefðir en við. En skólinn gat verið strembinn. Mér finnst skólarnir í Noregi miklu betri en hér á Íslandi. Það er mikill munur á framhaldsskólanáminu. Í norsku framhaldsskólunum er miklu meiri agi. Námið er miklu þyngra. Það voru mjög miklar kröfur á okkur bæði í verkefnaskilum og að gera ritgerðir.“

Fyrir um það bil tveimur árum flutti Sylvía ásamt móður sinni frá Stykkishólmi til Nesodden sem er rétt tæplega 20.000 manna sveitarfélag skammt sunnan við höfuðborgina Ósló. „Móðir mín starfar þarna sem sjúkraliði. Ég kom aftur til Íslands nú í lok sumars. Hér á Íslandi er ég að vinna hjá föður mínum. Hann rekur fyrirtækið „Íslensk bláskel og sjávargróður“ hér í Stykkishólmi. Við erum nú að þurrka og pakka þangi sem selt er til Spánar, Noregs og fleiri landa. Síðan starfa ég einnig á dvalaheimilinu hér í Stykksihólmi. Það sem dregur mig hingað aftur til Íslands er fjölskylda og vinir. Ég bjó alltaf hér. Það er notaleg tilfinning að koma heim í Hólminn. Ég stefni svo á að fara aftur til Noregs núna eftir áramótin,“ segir Sylvía Ösp.

 

Sylvía segir að það hafi verið mikil reynsla að flytja til Noregs. Hún talaði enga norsku. Fyrir utanförina hafði hún gengið í Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði. Þaðan hélt hún áfram námi í norskum menntaskóla. „Fyrstu þrjá til fjóra mánuðina talaði ég ensku en þá fóru norsku vinir mínir að segja við mig að hætta þessu. Þau sögðust ekki nenna að tala við mig á ensku og ég ætti bara að tala norsku við þau. Þannig var mér bara hent út í djúpu laugina og ég neyddist til að tala norskuna. Þá kom þetta ótrúlega hratt.“

 

Aðspurð segir Sylvía Ösp að hún sé ekki alveg búin að gera upp við sig hvað hún geri næst. „Ég ætla að fara aftur úr byrja á að finna mér vinnu og þéna smá. Ég er að velta fyrir mér að fara sem sjálfboðaliði til Afríku á næsta ári og vera þar í þrjá mánuði. Það kostar sitt en þetta er gamall draumur. Svo ætla ég að fara í háskólanám. Mig langar frekar að fara í háskólanám í Noregi en hér á Íslandi. Ég er búin að læra norskuna og búin að aðlagast samfélaginu þarna. Mér finnst æðislegt að vera í Noregi. Menningin þar er skemmtileg og Norðmenn yndislegir. Ég á orðið fullt af vinum þarna úti. Ein vinkona mín er að koma í heimsókn hingað til mín á Íslandi í desember og síðan var ein hjá okkur í ágúst,“ segir Sylvía.

 

Áður en Sylvía hélt erlendis spilaði hún mikið á píanó. „Ég byrjaði á því þegar ég var sjö ára. Síðan spilaði ég ekkert meðan ég var í Noregi þannig að ég ryðgaði smá. Hér heima í haust hef ég verið að spila hér heima fjórhent með Berglindi vinkonu minni. Ég er samt ekki í tónlistarskólanum. Þó langar mig til að ljúka framhaldsprófi í píanóleik. Ég var búin með þetta svokallaða miðpróf. Ég verð bara að sjá til hvort ég geri það úti eða kem hingað heim og klára hér. Annars á ég varla von á því að koma til Íslands í bráð nema þá í heimsóknir. Mér finnst ég eiginlega vera í einni slíkri núna þar sem ég ætla út aftur eftir áramótin.“

 

Viðtal þetta birtist í Aðventublaði Skessuhorns. 

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is