Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
18. desember. 2013 11:01

Egill Ólafsson skrásetur 150 ára sögu Borgarness

Sveitarstjórn Borgarbyggðar hefur gengið til samninga við blaðamanninn og sagnfræðinginn Egil Ólafsson um ritun 150 ára sögu Borgarness. Samningurinn er til tveggja ára og mun hann hefja vinnu við verkið strax eftir áramót. „Það er stefnt að því að ég skili af mér verkinu til ritnefndar í ársbyrjun 2016. Stefnan er síðan að gefa það út í mars 2017 þegar Borgarnes fagnar því að 150 ár verða liðin síðan staðurinn fékk verslunarréttindi. Það er einmitt tilefni þess að ráðist er í þetta verkefni,“ segir Egill í samtali við Skessuhorn.

Egill er alinn upp í Borgarnesi en fluttist á unglingsaldri að Hundastapa á Mýrum ásamt fjölskyldu sinni. Foreldrar hans eru þau Ólafur Egilsson og Ólöf Guðmundsdóttir. Eftir að hafa lokið BA gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands starfaði hann sem blaðamaður á Tímanum í fjögur ár og þar á eftir á Morgunblaðinu þar sem hann hefur unnið síðustu tvo áratugi. Egill á því að baki tæpan aldarfjórðung sem blaðamaður.

Aðspurður segist hann hlakka mikið til að takast á við að skrifa sögu Borgarnes og mun hann sinna því í fullu starfi á næstu tveimur árum. „Mér finnst þetta spennandi verkefni að takast á við sérstaklega þar sem ég þekki vel til í Borgarnesi - bæði sögu bæjarins og fólkið sem þar býr og hefur búið. Ég mun búa að þessum tengingum þegar ég fer af stað eftir áramót og sömuleiðis reynslu minni í blaðamennskunni.“

 

Egill mun starfa undir ritnefnd á ritunartímanum sem skipuð var af sveitarstjórn. Í henni sitja þau Birna G. Konráðsdóttir formaður, Bergur Þorgeirsson, Sóley Sigurþórsdóttir og Theódór Kr. Þórðarson. Ritari nefndarinnar og tengiliður hennar við sveitarstjórn er Guðrún Jónsdóttir, forstöðumaður Safnahúss Borgarfjarðar. Að sögn Egils fór síðasti fundur nefndarinnar með honum fram á mánudaginn og voru allir sammála um að kalla eftir hugmyndum íbúa varðandi efnistök og áherslur á fyrstu stigum. „Áformað er að halda íbúafund í bænum í febrúar þar sem verkefnið verður rætt og íbúum gefinn kostur á að koma á framfæri hugmyndum. Ég mun leggja mikla áherslu á við heimildaöflun að leita fanga sem víðast, bæði til núverandi íbúa í Borgarnesi og brottfluttra. Þá eiga margir ýmis gögn í fórum sínum sem innihalda verðmætar upplýsingar um bæinn á borð við dagbækur, myndir og bréf svo eitthvað sé nefnt. Allt þetta mun hjálpa til við að bregða sem bestu ljósi á söguna,“ segir Egill sem hvetur fólk til að setja sig beint í samband við Safnahús Borgarfjarðar eða hann eftir áramót til að koma gögnum á framfæri.

 

Saga Borgarnes verður að meginstofni sagnfræðirit en þó er markmið Egils að láta söguna fjalla um íbúana sjálfa. „Hefðbundnum sagnfræðispurningum verður svarað til að draga fram hvernig formgerð bæjarins hefur vaxið og þróast í gegnum árin. Einnig er markmiðið að segja frá fólkinu sem byggði upp bæinn með sínu daglega striti,“ segir Egill sem vonar að útkoman verði skemmtileg og fræðandi bók sem nái til sem flestra.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is