Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
27. desember. 2013 05:00

Ásgeir Pétursson fyrrv. sýslumaður: Fyrirskipaði útrás varnarliðs þinghússins í átökunum 30. mars 1949

Skessuhorn birtir í jólablaði sínu ítarlegt tveggja opnu viðtal við Ásgeir Pétursson fyrrum sýslumann Borgfirðinga á árunum 1961-1979. Í viðtalinu fer Ásgeir víða yfir viðburaríka ævi sína en hann er nú tæplega 92 ára. Hann tjáir sig meðal annars af hreinskilni um aðkomu sína að átökunum sem urðu á Austurvelli 30. mars 1949 eftir að Alþingi samþykkti að Ísland skyldi verða aðili að Norður Atlantshafsbandalaginu (NATO). Það eru einar alvarlegustu götuóeirðir sem orðið hafa á Íslandi.

  

Í viðtalinu greinir Ásgeir frá því í fyrsta sinn að hann hafi verið foringi varnarliðs Alþingishússins sem myndað var til aðstoðar lögreglu þennan dag þar sem menn óttuðust að kommúnistar og aðrir andstæðingar NATO-aðildar ætluðu að ráðast inn í Alþingisþinghúsið og rjúfa þingfund. Ásgeir segir að það hafi verið hann sem gaf varnarliðinu fyrirskipun um að ryðjast út úr þinghúsinu ásamt lögreglu eftir að lögreglustjórinn í Reykjavík leitaði til hans. Áður en Ásgeir gerði þetta ræddi hann við og fékk samþykki hjá Bjarna Benediktssyni sem var utanríkis- og dómsmálaráðherra. 

 

Átökunum lyktaði þannig að mótmælendum var stuggað frá þinghúsinu út á miðjan Austurvöll áður en lögreglan greip til þess að skjóta táragasi sem dreifði mannfjöldanum. Þinghúsið var skemmt eftir þessi átök enda dundi á því grjóthríðin, og margir voru sárir eftir barsmíðar og átök. Þessi atburður og deilur í kjölfarið urðu hitamál meðal þjóðarinnar um áratugaskeið.

 

Við birtum hér þann hluta viðtalsins við Ásgeir Pétursson þar sem hann greinir frá afstöðu sinni og aðkomu að þessum sögulega atburði. Viðtalið sjálft er miklu lengra og má lesa eins og fyrr sagði í jólablaði Skessuhorns:

 

 

„Ég skipaði mér hiklaust í sveit lýðræðisaflanna þegar ég varð sannfærður um að við ættum að gera Keflavíkursamninginn og ganga í NATO. Málið snerist um öryggi Íslands í heimi sem barst um í róti ófriðar hvert sem litið varð. Sem unglingur hafði ég upplifað hræringar kreppuáranna. Ég varð vitni að slagsmálum þegar horfði á Gúttóslaginn svokallaða 1932. Ég klifraði 10 ára gamall upp á girðingu við Iðnó og sá þessi áflog. Ég hafði svo stundað háskólanám og sjómennsku á stríðsárunum. Öll mín unglingsár upplifði ég þetta haturskennda hugarfar milli Evrópuþjóða, það er Þjóðverja, Frakka, Rússa og svo framvegis. Aftur og aftur, öld eftir öld hafði hann endað með skelfilegum styrjöldum. Ég hafði horft á nasismann sem var öfgastefna þótt þeir kölluðu sig sósíalista, gera ekki-árásarsamninga við hlutlaus ríki eins og Holland og Belgíu, Noreg og Danmörku. Adolf Hitler og þessir hörmulegu vandræðamenn sem stýrðu hreyfingu nasista byrjuðu ófriðinn með því að ráðast á þjóðirnar sem þeir höfðu lofað að gera ekki árásir á. Kommúnistarnir í Sovétríkjunum gerðu þetta líka gagnvart Finnlandi og Póllandi. Engin dæmi voru um svona háttarlag frá Kanada eða Bandaríkjunum.“

 

Við áttum samleið með Vesturheimsmönnum

 

Ásgeir fylgdist grannt með framvindu samtímasögunnar á þessum umbrotatímum. Hann dró sínar ályktanir af því sem hann sá.

 

Ásgeir 23 ára gamall árið 1945.
„Ég sannfærðist alveg ákveðið um það að stefna okkar Íslendinga í varnar- og öryggismálum yrði landfræðilega, menningarlega og upprunalega séð að tengjast við vestræna menn, íbúa Kanada og Bandaríkjanna. Saga okkar var sprottin af sömu rótum. Íslendingar flýja Noreg af því að þar var kúgun. Ameríkumenn flýja Evrópu vegna þess að þar ríkti trúmálaleg kúgun og ofríki af hálfu konunga og hefðarmanna. Í Ameríku vildi fólkið hafa alþýðumenn ráðandi. Við vildum það líka. Hér var ekki kóngur eða aðall né heldur í Ameríku. Fyrsta þing heimsins varð til á Íslandi. Fyrsta stjórnarskráin af viti verður til í Bandaríkjunum. Þegar upp kemur þessi stóra spurning um varnir Íslands eftir seinni heimsstyrjöld þá var það enginn vafi í mínum huga að við yrðum að hafa þær. Saga þess stríðs hafði kennt okkur það að Evrópuþjóðir ættu það til að ráðast inn í varnarlaus lönd. Okkar land var algerlega varnarlaust. Sem Íslendingur var ég blátt áfram sannfærður um að eina leið okkar til að halda uppi friði og öryggi fyrir þjóðina væri samningur við vestræn ríki. Þess vegna studdi ég aðildina að NATO og Keflavíkursamninginn. Lætin vegna þeirra mála urðu sennilega hvergi pólitískari og harðari en einmitt í Háskóla Íslands. Þá var ég í stúdentaráði með Geir Hallgrímssyni. Það starf endaði einhvern veginn þannig að hann fór til útlanda í frekara nám. Ég tók þar með að miklu leyti við forystu Sjálfstæðismanna í Háskólanum. Þetta er á árunum 1945 til 1947.“

 

Horfði mjög til föður síns

 

Þingmanns- og ráðherrasonurinn hlustaði einnig grannt á sér eldri menn, ekki síst á skoðanir föður síns sem hann leit mjög upp til og virti. Prestsonurinn Pétur Magnússon frá Gilsbakka, faðir Ásgeirs, átti feril sem tvímælalaust hlýtur að teljast með þeim merkari meðal íslenskra stjórnmálamanna. Hann var bæjarfulltrúi í Reykjavík 1922-1928, forseti bæjarstjórnar 1924-1926, sat í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins 1932-1948 og varaformaður flokksins frá 1937. Þingmennsku gegndi hann á árunum 1930-1937 og svo aftur frá 1942-1948. Pétur var fjármálaráðherra í nýsköpunarstjórninni svokölluðu 1944-1947 undir forsæti Ólafs Thors.

 

Ásgeir í dag undir málverki af föður sínum Pétri Magnússyni frá Gilsbakka í Borgarfirði.
„Pétur faðir minn sagði mér eftir stríð að Íslendingar ættu aðeins eina færa leið til að tryggja sjálfstæði okkar og öryggi og eiga vinsamlega sambúð við erlend ríki. Það væri að gera samning við Vesturheimsmenn um varnir landsins. Hann gerði ekki neinn mun á Kanada og Bandaríkjunum í því efni. Að vísu þekkti hann sendiherra Bandaríkjanna hér. Hann þekkti þessa menn vel og þeir báru mikla virðingu fyrir honum. Hann sinnti lykilhlutverki við stjórnun landsins sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra á árunum við stríðslok þar sem Íslandi var mörkuð stefna inn í nútímann eftir stofnun lýðeldis 1944. Það treystu honum allir.“

 

Óvæntur föðurmissir

 

Ásgeir fékk þó ekki lengi að njóta hollráða föður síns. Pétur Magnússon dó 1948 aðeins sextugur að aldri. Hann hafði farið til uppskurðar við sjúkrahús í Bandaríkjunum og lést þar óvænt eftir aðgerðina. „Það stóð til að hann kæmi aftur heim úr þessari aðgerð, myndaði ríkisstjórn og yrði forsætisráðherra. Það var frágengið og umsamið en haldið algerlega leyndu. Ég rek það í sjálfsævisögu minni,“ segir Ásgeir. Þannig munaði litlu að Íslendingar fengju borgfirskan forsætisráðherra sem hefði án efa markað spor í söguna.

 

Þrátt fyrir þennan glæsta feril á sögulegum tímum þjóðarinnar er eins og nafn Péturs Magnússonar frá Gilsbakka hafi óverðskuldað að einkennilega miklu leyti gleymst.

 

„Hann var bara svo hlédrægur og hæverskur. Hann lét oft lítið til sín taka út á við. Aldrei reifst hann á þingi. Ef hann fékk skammir þá hristi hann bara höfuðið og svaraði kurteislega. Andstæðingarnir hættu því að skammast í honum. Hann var vissulega merkilegur maður, hann er hérna fyrir ofan mig,“ segir Ásgeir og bendir á málverk sem hangir þar á veggnum. „Þenkjandi og skemmtilegur, mælskur ræðumaður og rökfastur.“

 

Slagurinn á Austurvelli 30. mars 1949

 

Sorgin var sár vegna föðurmissisins. Ásgeir gat þó ekki staldrað lengi við hana. Á þessum tíma var hann nýkvæntur Sigrúnu Hannesdóttur. Þau áttu litla dóttur og Ásgeir var önnum kafinn við lögfræðinám í Háskóla Íslands. Í gegnum stúdentapólitíkina samfara þróun í landsmálunum sogaðist Ásgeir svo inn í átakamiðju íslenskra stjórnmála.

 

Sem leiðtogi í Vöku, félagi lýðræðissinnaðra stúdenta í Háskólanum stóð þessi 27 ára gamli fjölskyldufaðir skyndilega og óvænt í forystu annarrar af þeim fylkingum sem laust saman í alvarlegustu pólitísku óeirðum í sögu lýðveldisins. Þær urðu miðvikudaginn 30. mars 1949.

 

Afar hatrammar deilur höfðu um skeið geisað í þjóðfélaginu vegna herstöðvamálanna. Nú var komið að því að taka afstöðu til þess hvort Ísland ætti að ganga í Norður-Atlantshafsbandalagið (NATO). Í því fólst að erlendur her myndi að nýju dvelja á Íslandi. Þjóðfélagið var á suðupunkti. Stór orð voru uppi þar sem landráðabrigsl og svæsnar skammir gengu á víxl bæði í dagblöðum og fjölmennum fundum. Fólk skipaði sér í fylkingar með og á móti. Þennan dag skyldi alþingi viðhafa atkvæðagreiðslu um málið en margir vildu að því yrði skotið til þjóðarinnar. Fylgjendur aðildar sem flestir voru Sjálfstæðismenn óttuðust að gerð yrði árás á þinghúsið daginn sem málið skyldi til atkvæðagreiðslu. Það stóð til að gera það 29. mars en fresta varð málinu um einn dag þar sem kom til óeirða á Austurvelli og margar rúður í þinghúsinu voru brotnar. Þetta magnaði enn óttann við að til stæði að hindra þingið í störfum sínum. Daginn eftir var lögregla vopnuð kylfum og táragasi búin að koma sér fyrir í þinghúsinu ásamt varalögregluliði sem í voru nálega 90 menn úr ungliðahreyfingu Sjálfstæðisflokksins. Þar að auki voru tæplega þúsund menn í svokölluðu varnarliði sem hafði komið sér fyrir í þinghúsinu og utan veggja þess.

 

Sem einn af helstu foringjum ungliðasveita Sjálfstæðisflokksins og leiðtogi aðildarsinna í Háskóla Íslands tók Ásgeir á sig lykilhlutverk í skipulagi og stjórnun varnarliðsins við Alþingi fyrir 64 árum. „Ég hafði forystu við að hrinda árásinni á Alþingi. Með henni átti að reyna að gera þingið óstarfhæft. Ég skipulagði varnalið þinghússins og stjórnaði því í atburðarás sem varð mjög hröð þar sem erfitt varð að sjá fyrir um þróunina og lyktir mála,“ segir Ásgeir.

 

Man sem gerst hefði í gær

 

Hann hefur áður lýst þessum atburðum en þykir nú tímabært að tala hreint út um hlutverk sitt og mat á því sem gerðist. „Þar var gerður einn klaufaskapur af okkar hálfu. Eftir óeirðirnar daginn áður höfðu forystumenn Sjálfstæðis-, Framsóknar- og Alþýðuflokks skorað á almenning að mæta á Austurvöll þennan dag. Það voru ótrúleg mistök. Ég andmælti þessu. Ég sá í hendi mér að þar með gætu ruddarnir skýlt sér innanum fólkið.“

 

Menn safnast saman framan við þinghúsið. Hluti varnarliðsins stillti sér upp við framhlið þess og myndaði þannig lifandi múr gegn mótmælendum. Ljósm.: Valgerður Tryggvadóttir/Wikipedia

Miðvikudaginn 30. mars 1949 mætti Ásgeir Pétursson snemma í þinghúsið. Mikill mannfjöldi hóf að safnast saman á Austurvelli upp úr hádegi. Talið er að nálega tíu þúsund manns hafi verið þar samankomin þegar flest var.

 

„Ég man þennan dag eins og hann hefði verið í gær. Ég fór niður eftir á sama tíma og ráðgert hafði verið að okkar hópar mættu. Lýðræðisflokkarnir lögðu til mannskap til að verja þinghúsið. Það var harðsnúið lið. Mig minnir að við höfum haft 927 menn á skrá úr öllum deildum Sjálfstæðisflokksins, frá Alþýðuflokknum og frá Framsókn. Skráin með nöfnunum er enn til í einu eintaki og geymd á góðum stað,“ upplýsir hann. „Þó ekki hjá mér,“ bætir hann við með bros á vör.

 

„Ég tók strax eftir því þegar árásarmennirnir á þinghúsið byrjuðu að hópast saman framan við það, að þar var mættur gamlárskvöldslýðurinn sem ég kallaði. Það voru hasarstrákar sem hentu grjóti í lögregluna á gamlárskvöld. Þeir voru mættir þarna, alls ekki af pólitík, heldur til að gera at. Þetta gerði okkur erfiðara fyrir því þeir voru kannski verstir. Svo komu þarna hálftrylltir kommar sem virtu hvorki frið né lög né mannhelgi. Þeir byrjuðu að vera með hátalara á jeppa sem þeir komu með og æpa slagorð. Kommarnir æstu múginn með hátalaranum. Á þeim tímapunkti hafði ég nægan mannskap úr varnarliðinu til að senda hóp til að taka þetta verkfæri úr höndum þeirra og koma þessum bíl burtu. Ég gerði það ekki því ég vildi ekki stofna til átaka að fyrra bragði,“ segir Ásgeir. „Kannski var það klaufaskapur.“

 

Þessi ljósmynd er tekin skömmu áður en varnarliðið gerði útrás ásamt lögreglu frá þinghúsinu. Sjá má varnarliðsmenn sem hafa myndað lifandi múr við framhlið hússins snúa andlitum gegn mótmælendum. Kylfa sést á lofti og rúður þinghússins eru brotnar. Ljósm.: Valgerður Tryggvadóttir/Wikipedia

Það hitnaði hratt í kolunum. Lætin jukust þegar það vitnaðist að Alþingi hefði samþykkt tillöguna um aðild að NATO. Um leið var þeim orðrómi komið á flug að þingmönnum sósíalista væri haldið föngnum í þinghúsinu. Brátt fór grjóti, torfusneplum og eggjum að rigna yfir framhlið þinghússins. Liðsafli stuðningsmanna NATO-aðildar myndaði lifandi varnarmúr umhverfis þinghúsið.

 

„Það var auðvitað mikil alvara á ferðum og lá við slysum. Eitt það alvarlegasta var þegar grjóthnullungurinn flaug framhjá höfði Jóns Pálmasonar sem sat í forsetasæti Alþingis. Það var kraftaverk að ekki fór verr þar.“

 

Gaf varnarliðinu skipun um útrás

 

Hin raunverulegu átök brutust út þegar lögreglan og varnarliðið gerðu útrás  úr og frá þinghúsinu til að hrekja mótmælendur á brott. „Það var ég sem gaf skipunina og sendi út þetta kylfulið varnarliðs þinghússins til aðstoðar lögreglunni. Ég gerði það. Lögreglustjórinn [innsk. blm.: Sigurjón Sigurðsson] talaði við mig og ég tók ákvörðun eftir að hafa borið þetta undir dómsmálaráðherra [innsk. blm.: Bjarna Benediktsson] sem veitti samþykki. Ég segi þetta ekki til að gorta af því og ég vil ekki að þetta hjómi þannig en svona var þetta. Það var hins vegar aldrei ætlunin að saklaust fólk yrði fyrir meiðslum. Klaufaskapurinn lá í því að árásarmennirnir voru eins og ég hafði bent á, svo klókir að þeir blönduðu sér innan um sakleysingjana sem ég kalla. Það var fólk sem tók ekki beinan þátt í óeirðunum en var kannski frekar mætt fyrir forvitni sakir. Þetta var ekki nógu gott,“ viðurkennir Ásgeir nú.

 

Lögreglan hefur skotið táragasi yfir mannfjöldann sem flýr. Ljósm.: Ólafur Magnússon/Mbl.

Hann segist hafa verið í þinghúsinu öðru hvoru allan tímann á meðan lætin voru á Austurvelli.

 

„Ég var eini maðurinn í varnarliðinu sem hafði aðgang að öllum stöðum þar innandyra. Aðkoma þess var ákveðin af ríkisstjórninni. Andstæðingarnir vissu þó eitthvað um hlutverk mitt, trúlega með því að hlera símann minn.“

 

Framsókn lögreglu og varnaliðs varð til þess að fylkingum laust saman með bareflum og grjótkasti. Það stefndi í meiriháttar slys með meiðslum og jafnvel manntjóni. Lögreglan greip þá til þess örþrifaráðs að beita táragasi. „Gasið fór því miður talsvert yfir sakleysingjana. Það gerði marga reiða. Það var kalt en sæmilegt veður. Til allra lukku þá var vindáttin að norðvestan þannig að gasmökkurinn fór framhjá þinghúsinu og inn á Kirkjustræti. Hefði vindur staðið á þinghúsið þá hefði það fyllst af gasi og orðið ólíft í því vegna þess að það var búið að brjóta svo marga glugga í húsinu. Gasið fældi burtu fólkið. Þar með lauk þessu.“

 

Umræðan var hatrömm og heit

 

Ásgeir minntist á hleranir á síma hans. Vitað er að stjórnvöld létu hlera nokkra síma andstæðinga NATO-aðildar árið 1949. Það er nýmæli að sú fylking hafi svarað í sömu mynt með hlerunum á sama tíma. „Það var auðvitað viss tegund af barnaskap í mér að láta sér ekki detta þetta í hug. Ég vissi það ekki fyrr en síðar.“

 

Austurvöllur og þinghúsið eftir átökin. Sjá má að fólk hefur rifið upp hraungrýti við gangstéttar til að grýta þinghúsið. Ljósm.: Lögreglan

Ásgeir segir að stjórnmálaumræðan á þessum árum hafi verið miklu hatrammari en í dag. „Það var meira um ruddalegar skammir og brigslyrði á milli manna og um menn. Mér finnst hún hafa verið á lægra stigi þá. Gjarnan mættu menn þó læra svolítið meira um kurteisi í dag. Það þótti undarlegt að sonur prúðmennisins Péturs Magnússonar skyldi vera svona harðskeyttur,“segir Ásgeir.

 

Við tilhugsunina um ímynd sína á þessum gömlu baráttudögum ungdómsáranna verður hann kankvís á svipinn. Hann hlær við. Þagnar svo íhugull í smástund. Verður eilítið fjarrænn og hugsar greinilega til baka áður en hann tekur aftur til máls. „Ég var harðskeyttur en ég var aldrei neinn ofstopamaður. Ef á þurfti að halda lét ég þó hart mæta hörðu. Íslendingar sem þjóð eru örlynt fólk og ég sver mig í ættirnar. Ég hef hins vegar alist upp við það að vera drenglyndur maður og hef aldrei vikið frá því. Þetta eigna ég foreldrum mínum að hafa innrætt mér. Harkan þarna 1949 var tilkomin vegna djúprar sannfæringar um að ég ætti þátt í því að gera ráðstafanir til að verja landið. Ég var algerlega reiðubúinn að leggja mikið að veði fyrir þann málstað. Jafnvel eitthvað af orðspori mínu ef þannig færi. Þetta snerist um að fylgja sinni sannfæringu og gera það sem maður taldi hina réttu lausn fyrir þjóðina.“

 

„Búsáhaldabylting“ bara gauragangur og hávaði

 

En hvað finnst hinum gamla baráttumanni um þau mótmæli sem urðu á Austurvelli í kjölfar bankahrunsins haustið 2008?

 

Úr þingsalnum eftir óeirðirnar. Allt er á rúi og stúi og búið að setja krossviðsplötur fyrir brotna glugga þinghússins. Ljósm.: Lögreglan.

„Ég fylgdist með því í fjölmiðlum. Þau ólæti voru meira og minna meinlaus. Lýðræðið gengur út á það að fólkið geti í kosningum ákveðið hvað skuli verða ofan á í stjórn landsins. Að ætla að leysa það með hávaða og grjótkasti fellur ekki saman við skilning á lýðræði hvorki 1949 né nú um stundir. Það sem gerðist 30. mars 1949 var þó allt annars eðlis en það sem við sáum í óeirðunum á Austurvelli veturinn 2008 til 2009. Árið 1949 var verið að hrinda árás á þinghúsið. Þeir ætluðu inn í húsið og stöðva þinghaldið. Þeirra markmið var að koma með ofbeldi í veg fyrir að yfirgæfandi meirihluti þingmanna úr þremur flokkum tæki þá ákvörðun að Ísland gengi í NATO. Við höfðum öruggar heimildir um það. Hitt sem gerðist um 60 árum síðar var gauragangur og hávaði. Þar var aldrei gerð viðlíka tilraun til að rjúfa þinghelgi og þing.“

 

Sjónvarpsfrétt RUV frá 2006 með kvikmynd frá óeirðunum á Austurvelli 30. mars 1949:

 

 

 

 

Frásögn af atburðunum á Wikipedia með ljósmyndum.

 

Ljósmyndir lögreglunnar frá óeirðunum og eftir þær.

 

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is