Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
10. febrúar. 2014 06:01

Fimmtíu útskrifaðir frá Háskólanum á Bifröst

Vilhjálmur Egilsson rektor útskrifaði á laugardaginn 50 nemendur frá Háskólanum á Bifröst. Útskriftarnemar að þessu sinni voru úr símenntun, grunn- og meistaranámi. Vilhjálmur óskaði útskriftarnemendum til hamingju með áfangann og hvatti þá til dáða. Útskriftarverðlaun hlutu Anna Fríða Garðarsdóttir á viðskiptasviði, Arnar Stefánsson á lögfræðisviði og Ingunn Vilhjálmsdóttir á félagsvísindasviði. Violeta Tolo Torres hlaut einnig verðlaun fyrir hæstu einkunn í meistaranámi. Að auki fengu þrír nemendur felld niður skólagjöld á haustönn í tilefni af framúrskarandi námsárangri. Það voru þau Sigurbjörg R. Hjálmarsdóttir á viðskiptasviði, Sigtryggur Arnþórsson á lögfræðisviði og Tjörvi Schiöth á félagsvísindasviði.

 

 

Nemendur sem héldu útskriftarræðu voru Björk Reynisdóttir af viðskiptasviði, Arnar Stefánsson lögfræðisviði, Þórdís Halla Guðmunsdóttir félagsvísindasviði og Gróa Axelsdóttir nemandi úr Menningarstjórnun flutti útskriftarræðu fyrir hönd meistaranema. Í ávörpum fulltrúa allra útskriftarhópa kom fram mikil ánægja með að hafa valið Háskólann á Bifröst. Verkefnaálag væri vissulega mikið en það væri einmitt hið góða vegarnesti sem skólinn gæfi þeim fyrir framtíðina. Talað var um mikla samkennd á meðal nemenda og að Háskólinn á Bifröst væri góður skóli til að öðlast framúrskarandi menntun.

 

Bifrastarblanda ólíkra einstaklinga

Í ræðu sinni fór Vilhjálmur Egilsson yfir þær kennsluaðferðir sem Háskólinn á Bifröst notar með það að markmiði að auka metnað og fagmennsku hjá nemendum. Þá fór hann yfir mikilvægi þess að hafa rétta blöndu af hæfileikum til að mynda sterkt teymi. Til að fyrirtæki og stofnanir geti náð árangri þurfi að setja saman rétta blöndu af starfsfólki með ólíka hæfileika. Þegar nemendur vinna í hópaverkefnum eins og misserisverkefnum á Bifröst er það einmitt til þess fallið að kenna fólki með ólíka hæfileika að vinna saman.

„Hingað koma ólíkir einstaklingar með margvíslegan bakgrunn. Skólinn er vettvangur til þess að bræða alla einstaklinga saman, því sem hópur fær hann miklu meira áorkað en sem einstaklingar hver um sig. Háskólinn á Bifröst vill einmitt taka á móti ólíkum einstaklingum sem ekki eru endilega sniðnir eftir uppskriftum eða stöðlum.  Bifrastarblandan af ólíkum einstaklingum í hópi nemenda, kennara og annars starfsfólks skólans er einmitt það sem býr til Bifrastarglampann, helsta vörumerki skólans,“ sagði Vilhjálmur.

 

Vörn snúið í sókn

Rektor vék einnig að rekstri skóla hér á landi. Rekstur væri almennt erfiður og sagði hann að Háskólinn á Bifröst skæri sig ekki úr hvað það varðar, skólinn hafi verið í varnarstöðu undanfarin ár. Í hnotskurn mætti segja að lækkun á framlagi ríkisins til rekstrar skólans hafi lækkað milli ára um sem svarar til rúmlega 10% af veltu. „Það er því ærið verkefni að ná endum saman en það verður hins vegar ekki gert með því að leggjast í vörn. Út úr slíku kemur ekkert annað en óskipulagt undanhald og ósjálfbær rekstur. Allt skólastarfið nú miðast því við hverja sóknaraðgerðina eftir aðra. Innleidd verður lotubundin kennsla sem skapar möguleika á stórbættri þjónustu bæði við staðnema og fjarnema.  Einnig verður innleidd svokölluð vendikennsla til að mæta þörfum nútímans og framtíðarinnar. Bifröst mun taka upp nýja línu í matvælarekstrarfræði og eru sérstaklega góð viðbrögð við þeim áformum. Einnig mun Bifröst setja af stað tvær nýjar meistaranámslínur, í alþjóðlegri stjórnmálahagfræði og í forystu og stjórnun, og að auki eru rannsóknir við skólann að stóreflast. Við horfum til framtíðarinnar í dag,“ sagði Vilhjálmur.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is