Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
13. febrúar. 2014 10:01

Opna Vinnustofuna Gamla Bókasafnið í dag

Þær Kristín Jónsdóttir ljósmyndari og Rósa Björk grafískur hönnuður opna formlega Vinnustofuna Gamla Bókasafnið í kjallara gamla skólastjórabústaðarins á Hvanneyri í dag. Vegna þessa ætla þær að bjóða gestum og gangandi á opnunargleði sem fram fer milli kl. 17-19. Á opnuninni verður boðið upp á léttar veitingar frá Ljómalind, Eðalfiski, Brugghúsi Steðja og Björk Harðar einnig sem þær Kristín og Rósa munu kynna starfsemi vinnustofunnar. Allir eru velkomnir. Sjá nánar um opnunargleðina hér og vinnustofuna sjálfa hér.

Kristín og Rósa voru í viðtali í Skessuhorni 5. febrúar síðastliðinn þar sem þær sögðu m.a. frá vinnustofunni og aðdragandanum að stofnun hennar. Viðtalið má lesa í heild sinni hér að neðan.

 

„Við sjáum mörg tækifæri í kortunum”

Ný vinnustofa skapandi greina verður bráðlega opnuð í kjallara gamla skólastjórabústaðarins á Hvanneyri í Borgarfirði. Það var bókasafn Bændaskólans síðast til húsa. Að opnun vinnustofunnar standa þær Kristín Jónsdóttir ljósmyndari og Rósa Björk grafískur hönnuður og vöruhönnuður. Báðar hafa getið sér gott orð í sínu fagi á undanförnum árum og unnið að mörgum verkefnum fyrir fólk og fyrirtæki sem finna má víða um land og heim. Blaðamaður Skessuhorns heimsótti Kristínu og Rósu Björk í nýju aðstöðuna á Hvanneyri sem þær kalla Bókasafnið og ræddi við þær um vinnustofuna, möguleika hennar og skapandi greinar í heimabyggð.

 

Hittust fyrst í desember

Báðar eru heimamenn og ungar að árum, Rósa Björk 32 ára og Kristín 27 ára. Rósa Björk er uppalinn Hvanneyringur sem eftir útskrift úr menntaskóla lærði grafíska hönnun og vöruhönnun í háskóla í borginni Bolzano á Ítalíu. Eftir að námi lauk sinnti hún störfum sem grafískur hönnuður á Ítalíu og á Írlandi bæði á markaðs- og hönnunarstofum og sjálfstætt starfandi. Síðustu ár hefur hún starfað á hönnunarstofu í Reykjavík. Í lok síðasta árs flutti Rósa Björk heim á Hvanneyri ásamt unnusta sínum og rúmlega árs gömlu barni þeirra. Kristín er aftur á móti borinn og barnfæddur Borgnesingur. Hún byrjaði að fást við ljósmyndun árið 2006 sem endaði með því að hún skráði sig í ljósmyndanám í Tækniskólanum í Reykjavík. Því námi lauk hún 2011. Myndir hennar hafa vakið töluverða athygli bæði hér heima og erlendis og hefur bandaríska tímaritið National Geographic sem dæmi falast eftir mynd frá henni til birtingar tvisvar. Að auki hefur Kristín haldið ljósmyndasýningar heima í héraði, fjölmargir panta hjá henni myndatökur vegna ýmissa tilefna og þá hafa birst myndir eftir hana í Skessuhorni. Kristín býr nú að Hálsum í Skorradal ásamt unnusta sínum Tryggva Sæmundssyni og tveimur sonum þeirra.

 

„Við hittumst fyrst í desember,” segja þær nánast samstundis og hlægja um leið eftir að blaðamaður spyr hvort hugmyndin að Bókasafninu eigi sér langan aðdraganda. „Við hittumst í boði hér á Hvanneyri í desember og vorum þar kynntar hvor fyrir annarri,” heldur Rósa Björk áfram. „Ég vissi reyndar hver Kristín var og hafði séð af og til flottu ljósmyndirnar hennar á Facebook. Ég var þá nýflutt aftur heim á Hvanneyri. Ég og unnusti minn ákváðum eiginlega að kýla á það að flytja aftur heim eftir að við eignuðumst son okkar. Við vorum búin að gæla við að flytja í nokkurn tíma og ákváðum bara að stökkva á tækifærið og prófa að búa annars staðar en í borg. Hvanneyri er hentugur staður á marga hátt, til dæmis fyrir barnafólk þar sem leikskóli og grunnskóli er á staðnum. Síðan get ég betur sinnt áhugamálum mínum eins og hestamennskunni. Einnig hafði áhrif á ákvörðunina að ég vissi af fólki sem er að vinna á svipuðu sviði og ég og Kristín sem hafði flutt „aftur heim” og er að gera eitthvað skemmtilegt á svæðinu,” segir Rósa Björk og nefnir sem dæmi fólkið í Hinu blómlega búi í Árdal í Andakíl og Sigurstein Sigurðsson arkitekt í Borgarnesi. Sjálf hefur hún einmitt hannað fyrir Hið blómlega bú. Það var útlit DVD mynddisks sem Hið blómlega bú gaf út fyrir síðustu jól. „Verkefnin fara alls ekki frá manni þó maður flytji úr höfuðborginni, heldur þvert á móti. Vinnu minni er hægt að sinna hvar sem er í heiminum, bara svo lengi sem maður hefur aðgang að góðri tölvu með góðri nettengingu og góðu húsnæði.”

 

Nálægð við Lbhí skiptir máli

Kristín kveðst hafa gengið með þann draum að opna ljósmyndastofu og vinnustofu í nokkurn tíma. Verkefnum hafi fjölgað statt og stöðugt síðustu misseri og hafi hún viljað aðskilja vinnu og heimili. „Kosturinn er sá að það er mikið um laust atvinnuhúsnæði bæði á Hvanneyri og í Borgarnesi. Maður hefur rennt hýru auga til nokkurra húsa, sérstaklega á Hvanneyri. Því var það nokkuð skemmtilegt að kynnast Rósu Björk í desember sem var í sömu pælingum. Við ákváðum því að snúa bökum saman og sameinast í leit að húsnæði fyrir okkur báðar. Fögin okkar eru tengd á ýmsan hátt og við sáum að við gætum haft hag af því að vera undir einu þaki og unnið saman að einhverjum verkefnum. Síðan er líka gaman að hafa einhvern félagsskap í vinnunni,” segir Kristín.

 

„Báðar vorum við sammála um að draumahúsnæðið væri efri hæðin í Halldórsfjósi sem nú er verið að gera upp. Þar er frábært útsýni og hentugt rými fyrir það sem við erum að gera. Eftir að við höfðum ráðfært okkur við Bjarna Guðmundsson í Landbúnaðarsafninu og Ágúst Sigurðsson rektor Landbúnaðarháskóla Íslands þá varð úr að við fengum bókasafnið til afnota í nokkra mánuði. Við fengum lyklana fyrir nokkrum dögum síðan og erum nú langt komnar með að innrétta staðinn.” Við þetta bætir Rósa Björk að þær sjái jafnvel fyrir sér að fólk í tengdri starfsemi komi í Bókasafnið með tímanum. „Hér er allavega nægt pláss fyrir fleiri. Gott er að vita af Landbúnaðarháskólanum hér á Hvanneyri og vonumst við til að skólinn haldi áfram að vera hér starfandi. Það skiptir máli að skólinn með öllu sínu starfsfólki og nemendum starfi hér áfram enda mikil þekking sem þar býr. Margir nemendur gætu til dæmis spreytt sig hérna með okkur og komið í framkvæmd einhverjum skemmtilegum hugmyndum.”

 

Fjölbreyttar hugmyndir

Báðar telja þær stöllur að fjölmörg tækifæri leynist í Borgarfirði og á Vesturlandi öllu fyrir fólk í skapandi greinum og kvíða þær ekki verkefnastöðu í framtíðinni. „Það er allavega meira en nóg að gera hjá mér. Eitt af markmiðum mínum með því að flytja á Hvanneyri var einmitt að reyna að fókusa á önnur verkefni, eins og að sinna vöruhönnun meira. Ég hef ekki sinnt henni nægjanlega mikið upp á síðkastið og hlakka því til að geta sinnt henni í Bókasafninu á næstunni. Síðan horfir maður til þess að geta veitt fyrirtækjum á svæðinu ýmsa hönnunarþjónustu, til dæmis bændum og öðrum heimavinnsluaðilum sem eru að framleiða ýmislegt áhugavert og hafa hug á að markaðssetja vörur. Hér mætti nefna hópinn á bakvið Ljómalind,” segir Rósa Björk.

 

Ætlar sjálf að aka og leiðbeina

„Ég ætla allavega að panta Rósu fyrst til að hanna aðeins fyrir mig,” bætir Kristín við brosandi. ,,Ég hef nú þegar verið að taka myndir fyrir fyrirtæki, einstaklinga og hópa á svæðinu. Ýmis verkefni eru síðan í pípunum hjá mér og verður því margt að gera á næstunni. Nýjungar verða til dæmis prófaðar. Fljótlega hyggst ég byrja að bjóða upp á sérstakar ljósmyndaferðir fyrir ferðamenn. Sjálf er ég með meirapróf og get því ekið með hópa í bíl sem við Tryggvi eigum. Markmiðið er að keyra með fólk um Borgarfjörðinn á útsýnisstaði þar sem hægt er að taka flottar myndir af borgfirskri náttúru. Um leið veiti ég fólki ráðgjöf í ljósmyndun, hvernig best sé að beita sér, stilla vélina o.s.fv. Ég hlakka til að spreyta mig á þessu.”

 

Opna innan skamms

Báðar tilheyra þær nýstofnuðu Félagi ungs fólks í skapandi greinum á Vesturlandi. Rósa Björk er í stjórn félagsins og segir hún að framundan séu viðburðir þar sem félagið verði kynnt nánar. „Skapandi greinar eiga sér marga sóknarmöguleika, ekki síst hér á Vesturlandi. Markmiðið með félaginu er að gera þessar greinar og fólkið sem þar starfar meira áberandi og um leið efla tengsl þeirra sem starfa í skapandi greinum í landshlutanum. Einnig tilheyrir félaginu fólk sem er frá Vesturlandi en starfar utan landshlutans. Þetta er mikið til fólk sem hefur jafnvel hug á að flytja aftur heim. Þetta er frjór og fjölbreyttur hópur sem vonandi á eftir að láta að sér kveða á næstunni,” segir Rósa Björk.

 

Bókasafnið hyggjast þær opna innan skamms og verður opnun þess kynnt sérstaklega þegar að því kemur. „Það verður gaman að fá að vinna að verkefnum hér á heimavelli. Við horfum björtum augum til framtíðarinnar og sjáum mörg tækifæri í kortunum. Við hlökkum því til næstu skrefa,” segja þær Rósa Björk og Kristín glaðar í bragði að lokum.

 

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is