Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
20. febrúar. 2014 04:48

Dagskrá um uppsveitir Borgarfjarðar í ljósi alþjóðlegra rannsókna

Snorrastofa og SAGA jarðvangur/geopark boða til dagskrár í hátíðarsal Snorrastofu í Héraðsskólahúsinu í Reykholti laugardaginn 22. febrúar næstkomandi kl. 13-17. Að dagskránni eru kallaðir til sérfræðingar í fornleifum, sögu veflistar, jarðfræði og bókmenntum. Þeir hafa allir horft til þessa svæðis í fræðum sínum og rannsakað sérstaklega m.a. Gilsbakka og Surtshelli.

Fyrri hluti dagskrárinnar fjallar um fornleifarannsókn, sem gerð var á Gilsbakka á árunum 2008-2009. Þar koma að máli bandarísku fornleifafræðingarnir og hjónin Kevin og Michele Smith, sem bæði komu að rannsókninni á Gilsbakka. Megináherslan verður á þann hluta rannsóknarinnar, sem gefur mynd af sögu vefnaðar og klæða frá landnámi fram að 1800, sem Michele hefur helgað sig sérstaklega. Til að fylla enn frekar inn í þá mynd flytur Hildur Hákonardóttir veflistarkona erindi um fornan vefnað.

 

 

Síðari hlutinn snýr að Surtshelli og þar verður sérstaklega gerð grein fyrir þeim fornleifarannsóknum sem hafa að undanförnu farið þar fram undir stjórn Kevins, sem áður var nefndur. Þá mun Árni Hjartarson jarðfræðingur fjalla um Hallmundarhraun og áhrif hraunrennslisins á byggðir og bú í uppsveitum Borgarfjarðar. Heimir Pálsson horfir á Surtshelli út frá hugmyndum bókmenntanna, ræðir um Bergbúaþátt, en þó meira um muninn á brennu og jarðeldi og hve mikilvægt það er frá sjónarhóli landnemanna og fyrstu kynslóðanna að reyna að skilja hvað býr í berginu.

 

Dagskrárstjóri er sr. Geir Waage og rétt er að geta þess að erindi Kevins og Micehele verða flutt á ensku. Í dagskrárhléi er boðið upp á kaffiveitingar, sem kosta kr. 500. Allir eru hvattir til að sækja bæði fróðlega og forvitnilega dagskrá, þar sem mörg sjónarmið munu koma fram um okkar áhugaverða svæði í efri byggðum Borgarfjarðar.

 

 

Um erindin:

Erindi Kevins um Gilsbakka nefnist á íslensku, Uppgröftur á heimili arnarins: Fornleifarannsóknir á Gilsbakka í Hvitársíðu, 2008-2009. (Excavations at the Eagle’s Home: Archaeological Investigations at Gilsbakki in Hvítársíða, 2008-2009). Um erindið segir Kevin: „Gilsbakki í Hvitársíðu komst a spjöld sögunnar sem höfuðbýli frægra höfðingja á Vesturlandi  á miðöldum – Illuga svarta, Gunnlaugs ormstungu, Hermundar Koðránsonar og fleiri. Samkvæmt  sagnfræðilegum heimildum misstu Gilsbekkingar smám saman völdin í innsveitum Borgarfjarðar en bærinn var áfram i byggð og fyrir tilverkan ábúenda i seinni tíð gegnir Gilsbakki mikilvægu hlutverki í  héraðinu. Árin 2008 og 2009 tók rannsóknarteymið okkar frá Brown Háskóla að sér tvo litla tilraunauppgrefti fyrir tilstilli Magnúsar Sigurðssonar bónda á Gilsbakka og með góðri aðstoð núverandi ábúenda. Rannsóknarholurnar voru grafnar milli kirkjunnar og þar sem sveitabærinn stendur núna og áttu að gefa til kynna hvort  heillegar fornleifar væru á staðnum.   Fyrirlestur þessi mun veita góða yfirsýn yfir niðurstöður rannsóknarinnar, en þær segja sögu  breytinga sem spanna nærri ellefu aldir á þessum merka og mikilvæga stað – sem var í senn  keppinautur og samherji Reykholts i uppsveitum Hálsasveitar og Hvítársíðu“.

 

Erindi Michele Smith gæti heitið á íslensku, Spinn þú mér sögu og prjónaðu við. Vefnaður, konur og klæði á Íslandi, 874-1800. (Spin me a Yarn, Weave Me a Tale: Textiles, Women and Cloth in Iceland, AD 874-1800). Um erindið segir Michele: „Ólíkt flestum öðrum stöðum í heiminum býr Ísland yfir ríkulegu og fjölbreyttu safni textílfornleifa. Þó að það hafi ekki verið rannsakað nema að litlu leyti hefur það að geyma mikilvægar upplýsingar um fortíð Íslands og sérstaklega um hlutverk kvenna i hefðbundnu íslensku samfélagi og efnahag landsins. Í þessum fyrirlestri verður farið yfir niðurstöður áframhaldandi rannsókna á textílafurðum frá uppgröftum víðs vegar á Íslandi, litið til kynbundinna hlutverka, textíltækni, verslunar og klæðaburðar frá landnámi (873 e Kr) og til siðari hluta 18. aldar.

Hildur Hákonardóttir nefnir sitt erindi, „Indígós óþörf kaup“ - heimafengið eða influtt. Um fornan vefnað. Lýsing hennar hljóðar svo: „Miklar breytingar urðu á ullarvinnslu á íslandi um miðja 18 öldina Farið var að flytja inn rokka, fínni ullarkamba, lárétta vefstóla og setja á stofn verkstæði í ullarvinnslu. Við ætlum að líta í kringum okkur við þessi tímamót. Líta til beggja átta - aftur til fyrri hátta og fram í tímann einnig. Ígrunda af hverju við, þetta nýungagjarna samfélag, hélt dauðahaldi í steinaldarverkfæri í 500 ár eftir að aðrar þjóðir í Evrópu höfðu breytt framleiðsluháttum sínum“.

 

Erindi Kevin Smith um Surtshelli nefnist á íslensku, Þjófagreni eða heljarpyttur? Nýlegar fornleifarannsóknir í Surtshelli . (Den of Thieves or the Temple of Doom? Recent Archaeological Investigations in Surtshellir). Kevin segir um erindi sitt, „Surtshellir kann að vera sá staður sem menn hafa helst óttast á Íslandi. Síðustu þúsund árin hefur hellirinn ætíð verid tengdur óhugnaði, bæði í sagnfræðiheimildum og þjóðtrú, -heimsendi, útlögum, illum ungum prestum, svikum, limlestingum, dauða, draugum og öndum. Einnig segir að höfðingjar og leiðtogar Víkingaaldarinnar hafi umsnúið hryllingnum til að koma á jafnvægi á ný. Í þessum sögnum eru tvenns konar hugmyndir ríkjandi – að hellirinn hafi verið samastaður útlaga og að þar hafi Surtur átt heima. Surtur var vera úr forneskju sem skv. Snorra Sturlsyni var til fyrir sköpun heimsins og myndi tortíma heiminum og drepa Frey við Ragnarök. Hvernig var orðspor Surtshellis til komið? Árið 2001 fundust við fornleifarannsóknir i Surtshelli ummerki um mannvirki á upphafsstigi frá víkingaöld , dýraleifar og heillegar menningarleifar djúpt i hellinum. Kortagerð árið 2012 og uppgröftur árið 2013 hafa leitt í ljós nýjar upplýsingar um Surtshelli sem ögra fyrri hugmyndum okkar um hellinn og krefjast þess að við viðrum nýjar hugmyndir um hlutverk hans a víkingaöld. Í þessum fyrirlestri með skýringarmyndum mun vera farið yfir fyrri þekkingu okkar á Surtshelli og ört vaxandi skilning okkar á þessum einstaka fornleifastað á Íslandi og í heimi víkinga“.

 

Erindi Árni Hjartarsonar jarðfræðings heitir, „Hallmundarhraun og goslýsingin forna í Hallmundarkviðu“ þar sem hann fjallar um Hallmundarhraun og áhrif hraunrennslisins á byggðir og bú í uppsveirum Borgarfjarðar eins og áður er sagt.

 

Heimir Pálsson flytur erindið „Surtur og jarðeldar. Hverjir eru bergbúarnir?“ Þar ræðir Heimir um Bergbúaþátt og muninn á brennu og jarðeldi. Vangaveltur hans og tilgátur snúast að verulegu leyti um það að gera verði greinarmun á eldjötnum og jarðeldajötnum, þann greinarmun hafi fræðin ekki gert.

 

 

 

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is