Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
18. febrúar. 2014 04:57

Nýtt launaflsvirki eykur flutningsgetu háspennulína og rekstraröryggi

Við athöfn á Klafastöðum á Grundartanga síðdegis í dag var nýtt launaflsvirki Landsnets formlega tekið í notkun. Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra spennusetti virkið. Ráðherra sagði áður en hún ræsti launaflsvirkið að þessi framkvæmd greiddi mjög fyrir uppbyggingu á öflugasta iðnaðarsvæði landsins, þar sem 870 manns störfuðu hjá tíu fyrirtækjum. Stefnt væri að enn frekari eflingu atvinnustarfsemi á Grundartanga á næstu misserum og árum. Launaflsvirkið er stærsta einstaka verkefni Landsnets á liðnum árum og nam heildarkostnaður rúmum tveimur milljörðum króna. Það bætir verulega rekstur raforkuflutningskerfis Landsnets, eykur afhendingaröryggi og gerir Landsneti kleift að flytja meiri orku inn á Grundartangasvæðið.

 

 

Framkvæmdir við launaflsvirkið hófust í ágúst 2012. Ákveðið var að ráðast í Klafastaðaverkefnið þegar ljóst var að launaflsskortur var farinn að hamla frekari álagsaukningu í tengivirkinu á Brennimel í Hvalfirði, stærsta afhendingarstað orku í flutningskerfi Landsnets. Þangað liggja þrjár 220 kílóvolta flutningslínur og þar er tengipunktur við iðnaðarsvæðið á Grundartanga. Tveir stórir notendur; Norðurál og Elkem Ísland, eru tengdir þar við kerfið ásamt fjölda annarra smærri fyrirtækja. Á Brennimel er einnig tenging inn á dreifikerfi RARIK og annar upphafspunktur byggðalínunnar.

 

„Það er áhugi hjá bæði núverandi notendum og nýjum aðilum að fá afhenta meiri orku á Grundartanga en við höfum ekki fyrr en nú verið í stakk búin til að sinna þeim óskum. Frekar en að ráðast í umfangsmiklar breytingar og endurbætur á tengivirki okkar á Brennimel og lagningu nýrrar línu inn á iðnaðarsvæðið var farin sú leið að reisa nýtt launaflsvirki hér á Grundartanga með besta tæknibúnaði sem völ er á. Hann hefur þegar sannað sig í prufurekstri virkisins og er mikilvæg viðbót við þær snjallnetslausnir sem við erum að innleiða í rekstri og stjórn raforkukerfisins til að auka afhendingaröryggi,“ segir Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets.

 

Auðveldar að bregðast við álagsbreytingum

Uppsetning launaflsvirkisins er fyrsta skrefið í endurskipulagningu orkuafhendingar Landsnets á Grundartanga og með tilkomu þess er mögulegt að auka flutning eftir núverandi línum. Orkuflutningsgetan eykst umtalsvert til svæðisins sem er í takt við þau uppbyggingaráform og skipulagsbreytingar sem bæði Faxaflóahafnir og Hvalfjarðarsveit hafa unnið að á Grundartanga. Í framtíðinni mun virkið stækka og afhending orku til notenda verða möguleg frá tveimur stöðum á svæðinu. Þannig minnkar mikilvægi spennistöðvarinnar á Brennimel við þessa ráðstöfun en afhendingaröryggi eykst. Launaflsvirkið bætir einnig verulega spennustýringu flutningskerfisins og verður Landsnet mun betur í stakk búið til að bregðast við snöggum álagsbreytingum og áhrifum truflana í kerfinu með virkri spennustýringu. Við hönnun Klafastaðavirkisins var haft að leiðarljósi að draga sem mest úr umhverfisáhrifum slíkra mannvirkja. Liður í því er að hafa virkið yfirbyggt sem eykur líka rekstraröryggið og stórbætir endingu alls búnaðar. Þetta mun jafnframt bæta spennugæðin umtalsvert í kerfinu og ættu notendur um allt land að njóta góðs af því. Undirbúningur að byggingu launaflsvirkisins hófst árið 2010 og var samið við ABB í Svíþjóð um kaup og uppsetningu á búnaði. Uppsetningu hans lauk í desember 2013 og frá þeim tíma hefur virkið verið í tilraunarekstri með tilheyrandi tækniprófunum.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is