Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
21. febrúar. 2014 11:11

Fyrsta loðnan komin til Akraness og hrognataka hafin

Fyrsti loðnufarmur vertíðarinnar barst til Akraness í gærkvöldi. Það var skip HB Granda, Lundey NS 14, sem kom með fullfermi eða um þúsund tonn. „Við komum til Akraness í gærkvöldi. Það átti að skoða aflann og taka úr honum prufur til að athuga hvort loðnan væri komin með nógu þroskuð hrogn. Það varð niðurstaðan að svo væri. Því hófst löndun úr skipinu hér á Akranesi í morgun. Að öðrum kosti hefðum við þurft að sigla austur á Vopnafjörð til löndunar,“ segir Stefán Geir Jónsson fyrsti stýrimaður og afleysingaskipstjóri á Lundey. Aflinn fékkst í Faxaflóa og því nærtækt að sigla með farminn til Akraness þar sem HB Grandi er með fiskimjölsverksmiðju og aðstöðu til hrognatöku og frystingar.

 

 

„Við vorum 12 til 15 sjómílur suður af Snæfellsjökli þar sem við fengum þetta á 70 til 80 faðma dýpi. Þarna fundum við tvær töluvert stórar loðnutorfur með um tíu sjómílur á milli. Við náðum þúsund tonnum og fullfermi í tveimur köstum með nótinni þrátt fyrir að það væri leiðindaveður. Þetta er væn og falleg loðna. Þeir ætla að taka úr henni hrogn hér á Akranesi.“

 

 

Stefán segir að vertíðin nú sé ekki svipur hjá sjón miðað við undafarnar loðnuvertíðar. „Þetta er engin vertíð. Skip HB Granda mega veiða á bilinu fimm til sex þúsund tonn hvert um sig á þessari vertíð. Á loðnuvertíðinni í fyrra voru þau með á bilinu 20 til 27 þúsund tonn. Þetta er einn fimmti af því sem við máttum veiða í fyrra.“

 

Hann segir að lítið sé að sjá af loðnu. „Þetta er svo sem komið í formið núna en það er ekki mikið af loðnu á ferðinni. Það er alveg greinilegt, allavega af því sem við höfum séð til þessa. Við fengum fyrsta aflann austur af Ingólfshöfða. Það er ótrúlega lítið að sjá hér á Faxaflóasvæðinu. Oft hefur víða verið sýnilegt ryk á tækjunum hjá okkur eins og í kringum Hraunið en nú er ekkert að sjá. Þetta voru bara þessar tvær stöku torfur sem við fundum suður af Jökli eftir að hafa verið að leita í sólarhring í Faxaflóa.“

 

Fregnin af loðnuafla Lundeyjar í Faxaflóa hefur borist hratt. Nú í morgun voru minnst fjögur nótaskip á veiðum suður af Snæfellsjökli.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is