Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
21. febrúar. 2014 03:11

Ný stjórn KFÍA þarf að takast á við fjárhagsvanda félagsins

Aðalfundur Knattspyrnufélags ÍA var haldinn í gær. Fjölmenni var á fundinum og voru umræður fjörugar, að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu. Rekstrartap félagsins á síðasta ári var 15,5 milljónir króna en vegna tapaðra krafna upp á 2,5 milljónir var heildartap félagsins 18 milljónir. Fram kom að varasjóður félagsins væri uppurinn en jákvætt á móti að félagið er skuldlaust. Rekstrartekjur voru 173 milljónir en rekstrargjöld 191 milljón. Í tilkynningu frá fundinum segir að rekstrartap félagsins megi rekja til nokkurra þátta. Miklar sviptingar voru í þjálfaramálum, skipt var um þjálfara tvívegis hjá mfl. karla og einnig var skipt um þjálfara hjá mfl. kvenna fyrir tímabilið. Kostnaður við erlenda leikmenn fór verulega fram úr áætlunum og plön um að bjarga málunum í félagaskiptaglugganum í júlí gengu ekki eftir. Þó að tekjuáætlun hafi nokkurn veginn staðist minnkuðu t.d. tekjur af aðgangseyri um sex milljónir milli ára. Meistaraflokkur kvenna stóð sig mjög vel á árinu en þar var líka kostað til meiru en áður hefur verið gert. „Stelpurnar hafa mjög flotta umgjörð og er stefnan að halda þeirri umgjörð og gott betur á þessu ári og fjármagna það með sértækum aðgerðum,“ segir í tilkynningunni.

Haraldur Ingólfsson framkvæmdastjóri KFÍA lagði fram áætlun fyrir nýbyrjað starfsár þar sem gert er ráð fyrir að félagið sníði sér stakk eftir vexti og lækki útgjöld um 40 milljónir króna milli ára. Áætlunin gerir því ráð fyrir að velta félagsins verði um 151 milljón króna á árinu.

 

Ný stjórn

Miklar breytingar urðu á stjórnum félagsins. Ingi Fannar Eiríksson steig til hliðar sem formaður og í stað hans var kosinn Magnús Guðmundsson forstjóri Landmælinga Íslands. Með honum í stjórn voru kosin Sævar Freyr Þráinsson, Kolbrún Hreinsdóttir, Bjarnheiður Hallsdóttir og Örn Gunnarsson. Til vara Vigdís Elva Jónsdóttir og Ólafur Ingi Guðmundsson. Formaður afrekssviðs var kosinn Viktor Elvar Viktorsson og formaður uppeldissviðs var endurkjörinn Berglind Þráinsdóttir. Í kjörnefnd voru kosin Gísli Gíslason, Jóhanna Hallsdóttir og Steinar Adolfsson. Fram kom á fundinum mikil ánægja með það fólk sem valist hefur í stjórnir félagsins og var fólk sammála um að bretta upp ermar og líta fram á veginn.

 

Uppbygging til framtíðar

Fjölmargir kváðu sér hljóðs á fundinum og málefnaleg gagnrýni kom fram á það sem vel var gert, hvað betur má fara og hvert félagið stefnir. Fram kom á fundinum að mikil ánægja er með ráðningu Gunnlaugs Jónssonar og Jóns Þór Haukssonar sem þjálfara mfl. karla og einnig að Magnea Guðlaugsdóttir leiði áfram mfl. kvenna. Gunnlaugur fór yfir þróunina þessa fyrstu mánuði í starfi. Leikmannahópurinn er nokkurn veginn klár fyrir sumarið, mest byggt á uppöldum heimamönnum en fimm leikmenn hafa verið fengnir til liðs við félagið til að styrkja hópinn. Gunnlaugur nefndi að þeir hafi mikið verið að vinna í sálfræðiþættinum og hafa ásamt mfl. kvenna og fleiri iðkendum úr öðrum íþróttagreinum verið að tileinka sér Key-Habits markmiðaþjálfun sem fer vel af stað.Yngri flokka starfið var einnig til umfjöllunar og var almenn ánægja með hvernig staðið er að málum í yngri flokkunum, aðstaðan góð og vel menntaðir og reyndir þjálfarar við störf. Ingi Fannar fráfarandi formaður þakkaði fundargestum góðan fund og sagði að bjart væri framundan með nýju öflugu fólki í störfum fyrir félagið. Magnús Guðmundsson nýkjörinn formaður bað fyrir kveðju og er tilbúinn til góðra verka, en hann var staddur erlendis þegar fundurinn fór fram.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is