01. mars. 2014 09:01
Hnefaleikafélag Akraness hefur haft í nógu að snúast síðustu dagana, að sögn Þórðar Sævarssonar íþrótta- og heilsufræðings og þjálfara hjá HAK. „Keppendur frá félaginu ásamt þjálfara fóru sína aðra ferð til Nuuk á Grænlandi og öttu kappi við heimamenn. Þar bar hæst að nefna frábæran árangur Guðmundar Bjarna Björnssonar, sem sigraði andstæðing sinn örugglega 3-0, og Marínós Elí Gíslasonar, sem stöðvaði andstæðing sinn í annarri lotu. Hópnum var vel tekið af heimamönnum og nýskipaður ræðismaður Íslands, Pétur Ásgeirsson, tók vel á móti hópnum að keppni lokinni,“ segir Þórður.
Guðmundur Bjarni var svo aftur á ferð um liðna helgi í keppni í Mjölniskastalanum í Reykjavík og stöðvaði þar andstæðing sinn, Magnús Bjarka frá Hnefaleikafélaginu Æsi, örugglega í þriðju lotu með miklum yfirburðum. Gísli Kvaran sigraði einnig þegar hann lagði ríkjandi Íslandsmeistara í 69 kg flokki, Hauk Borg frá Hnefaleikafélaginu Æsi, nokkuð sannfærandi.