Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
27. febrúar. 2014 05:13

Gísli Einarsson fjölmiðlamaður er Brautryðjandinn 2014

Borgfirðingurinn og fjölmiðlamaðurinn Gísli Einarsson hlaut í dag viðurkenninguna „Brautryðjandinn 2014“ á ársfundi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Viðurkenningin er veitt fyrir framúrskarandi atorku og hugvit á sviði verðmæta- og nýsköpunar. Þetta er í annað sinn sem viðurkenningin er veitt, en viðurkenningin 2013 kom í hlut Siglfirðingsins og athafnamannsins Róberts Guðfinnssonar fyrir lofsvert framtak og uppbyggingu á Siglufirði síðustu ár.

Gísli tók á móti viðurkenningunni frá Þorsteini Inga Sigfússyni, forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, og Sigríði Ingvarsdóttur, framkvæmdastjóra stofnunarinnar. Í máli Sigríðar kom fram að Gísli Einarsson, sem frétta- og dagskrárgerðamaður Ríkisútvarpsins, væri landsmönnum öllum að góðu kunnur fyrir jákvæðar fréttir af fólki og fyrirtækjum um land allt. Hann hafi verið ötull við að koma á framfæri fróðleik af nýsköpun og sprotastarfsemi, bæði með innslögum inn í hefðbundna fréttatíma og með þáttagerð undir yfirskriftinni: „Út og suður“ og „Landinn“. Því má við þetta bæta að Gísli hóf störf að fjölmiðlum fyrst sem blaðamaður á Vesturlandspóstinum um skamma hríð, en síðar árið 1998 sem annar af stofnendum Skessuhorns og ritstjóri þess fyrstu árin.

 

 

Táknmynd viðurkenningarinnar, sem veitt var, er í formi listaverks eftir Eddu Heiðrúnu Bachman, sem sjálf er mikill frumkvöðull og Brautryðjandi. Verkið málaði hún sérstaklega fyrir þetta tilefni og kallar verkið fram með glaðlegum og dökkum litum bæði skin og skúri sem allir Brautryðjendur ganga í gegnum.

 

Heimilisvinur fjölmargra fjölskyldna

„Gísli hefur á sinn einlæga hátt náð vel inn á heimili landsmanna með efni, sem ég held að við höfum öll áhuga á. Það eru oft jákvæðu fréttirnar af hugvitsmönnunum sem eru að koma fram með alls konar nýstárlegar lausnir, af fyrirtækjum sem eru að feta nýjar slóðir t.d. með nýstárlegri nýtingu hráefna og af almenningi alls staðar af að landinu sem er að vinna á jákvæðan hátt við það að auka lífsgæðin í landinu,“ sagði Sigríður við tækifærið og minnti á að í lögum um Nýsköpunarmiðstöð Íslands væri stofnuninni einmitt ætlað að „styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs og auka lífsgæði í landinu“.

Hún sagði að Gísli væri fyrir löngu orðinn heimilisvinur fjölmargra fjölskyldna.  „Hann birtist okkur í kafaldsbyl uppi á heiðum, í keppnisham á íþróttakappleikjum, inni á gafli íslenskra sveitaheimila og síðast en ekki síst hefur umfjöllunarefni hans af íslenskum sprotafyrirtækjum alls staðar af að landinu vakið bæði eftirtekt og áhuga þeirra, sem á horfa og fylgjast með skemmtilegum efnistökum.“

 

Oft erfitt að koma að jákvæðum fréttum

Með viðurkenningunni vill Nýsköpunarmiðstöð Íslands þakka Gísla Einarssyni fyrir sitt mikilvæga innlegg í íslenska fjölmiðlaflóru með von um að viðurkenningin megi verða honum hvatning til áframhaldandi sköpunar, sem aftur skilar sér sem hvatning fyrir frumkvöðla og atvinnulíf í landinu.  „Það hefur oft og tíðum reynst þrautin þyngri að koma að jákvæðum fréttum á framfæri við fjölmiðla og er það miður. Því viljum við hvetja hér með alla fjölmiðla landsins að huga vel af því mikla og góða starfi, sem er að eiga sér stað víðs vegar um íslenskt samfélag og hafa skal í huga að smáar viðskiptahugmyndir dagsins í dag geta orðið að stórfyrirtækjum framtíðarinnar,“ sagði Sigríður.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is