03. mars. 2014 02:04
Á fundi bæjarráðs Akraness sl. fimmtudag var ákveðið að hætta við að ráða í starf markaðs- og kynningarfulltrúa Akraneskaupstaðar og hefur öllum umsóknum um starfið því verið hafnað. Starfið var auglýst fyrr í vetur og voru umsækjendur 32. Þeim hefur nú verið tilkynnt um ákvörðun bæjarráðs og jafnframt boðið að umsókn þeirra gildi áfram. Í stað fyrrgreinds starfs verður starf ferðamálafulltrúa auglýst laust til umsóknar og hæfniskröfur fyrir það starf sambærilegar og í starf markaðs- og kynningarfulltrúa sem ekki verður ráðið í að minnsta kosti að sinni.
Skýringin sem gefin er fyrir þessari ákvörðun bæjarráðs og töfum sem orðið hafa á ráðningu í umrætt starf eru ákveðnar breytingar sem orðið hafa og tengjast ferðamálum á Akranesi. Þær eru að núverandi rekstraraðili tjaldsvæðisins hefur sagt upp samningi við Akraneskaupstað um reksturinn. Það gefi tilefni til að endurhugsa starf að ferðamálum í bænum. Þar sem rekstur tjaldsvæðisins sé umfangsmikill og krefjist mikillar viðveru á sumrin, þá var það mat bæjaryfirvalda að starfið, eftir að rekstrarþætti og umsjón með tjaldstæði var bætt við, hefði tekið það miklum breytingum að ekki væri unnt annað en auglýsa það að nýju. Heiti á starfinu er einnig breytt til að gefa sigrúm fyrir starfsheitið upplýsinga- og kynningarfulltrúi ef ákveðið verður að ráða starfsmann í slíkt starf síðar meir, segir í skýringum sem umsækjendum voru gefnar.