04. mars. 2014 09:27
Ferðamenn eru síður viðskiptavinir fyrirtækja á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit en fyrirtækja í Borgarfirði, Snæfellsnesi og í Dölum. Þetta kemur fram í niðurstöðum fyrirtækjakönnunar Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi sem framkvæmd var í nóvember á síðasta ári. Þar segir að um 53% fyrirtækja á Vesturlandi telja að innlendir og erlendir ferðamenn séu að einhverju leyti viðskiptavinir sínir. Um 5% fyrirtækja segjast viðskiptavini sína að öllu leyti ferðamenn og þá telja um 24% fyrirtækja að ferðmenn séu að nokkru eða miklu leyti viðskiptavinir þeirra. 24% fyrirtækja telja að ferðamenn séu að litlu leyti viðskiptavinir þeirra. Tæplega helmingur fyrirtækja á Vesturlandi eða 47% telja að ferðamenn séu að engu leyti viðskiptavinir þeirra.
Að sögn Vífils Karlssonar hagfræðings hjá SSV, sem framkvæmdi könnunina ásamt Einar Þ. Eyjólfssyni, gefa tölurnar vísbendingar um hversu ferðaþjónustan snertir margar aðrar atvinugreinar í landshlutanum. „Við frekari sundurliðun á svörunum kom í ljós að verslun, leigustarfsemi, menning og íþróttir og að sjálfsögðu gisti- og veitingarekstur taldi sig helst vera að þjónusta ferðamenn.
Ferðaþjónustan er um margt sérstök hvað það umfang snertir. Ferðamenn skipta ekki eingöngu við ferðaþjónustufyrirtæki heldur nýta þeir (og kalla á) ýmsa aðra þjónustu eins og verslun, sundstaði og jafnvel lögreglu og heilsugæslu. Ef stuðst er við tölurnar má segja að hrein ferðaþjónustufyrirtæki er sennilega á finna meðal 17% svarenda í könnunni en rúmlega tvöfalt fleiri (36%) eiga í einhverjum viðskiptum við ferðamenn að auki,“ segir Vífill.
Forsvarsmenn tæplega 200 af 900 starfandi fyrirtækjum í landshlutanum tóku þátt í könnunni, sem telst nokkuð gott svarhlutfall að mati Vífils. Heildar niðurstöður hennar verða kynntar í sérstakri skýrslu sem kemur út á næstunni. Þá munu tölurnar einnig nýtast í annarri gagnavinnu hjá SSV.