04. mars. 2014 03:55
AGF í Árósum í Danmörku hefur boðið Helga Guðjónssyni leikmanni Fram í þriðja flokki í knattspyrnu til æfinga og keppni í hraðmóti í Noregi um miðjan þennan mánuð. Þannig er hann að fara til reynslu hjá danska liðinu. Helgi er Borgfirðingur að ætt og uppruna og er tvímælalaust meðal efnilegustu knattspyrnu- og íþróttamanna í landinu um þessar mundir. Hann er af 1999 árgerðinni og hefur spilað með U-15 ára landsliði Íslands í knattspyrnu og var einn af markaskorurum Íslands í riðlinum á síðasta móti. Helgi skoraði 72 mörk fyrir 4. flokk Fram á síðasta ári og bætti með því félagsmetið um hvorki meira né minna en 20 mörk. Þá er Helgi einnig mjög góður í körfubolta og hefur verið þar í landsliðsúrtaki. Helgi er auk þess Íslandsmeistari í tveimur hlaupagreinum í sínum aldursflokki og á þar Íslandsmet auk meta í sundi sem félagsmaður í UMSB.