Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
05. mars. 2014 04:03

Jákvæðni og gleði er hluti af námskránni

Viðtal við Margréti Pálu Ólafsdóttur stofnanda Hjallastefnunnar birt í heild

 

Í síðustu viku birtist í Skessuhorni ítarlegt viðtal við Margréti Pálu Ólafsdóttur forgöngumann að Hjallastefnunni. Vegna fjölda beiðna þar um er viðtalið birt hér í heild sinni.

 

"Það tekur ferskur og góður matarilmur á móti blaðamanni þegar hann gengur inn í verslunina og kaffihúsið Lifandi markað í Kópavogi eitt síðdegið fyrir skömmu. Sólin er lágt á lofti, umferðin að þyngjast og því notalegt að koma inn úr bílnum, á hlýlegt kaffihúsið. Stuttu síðar gengur Margrét Pála Ólafsdóttir inn og með henni eins og ferskur andvari. Hún pantar sér te og sest hjá blaðamanni en við ætlum að taka spjall um Hjallastefnuna og sitthvað sem henni tengist. Margrét Pála er frumkvöðull og brautryðjandi og stofnaði fyrirtækið Hjallastefnuna ehf. aldamótaárið 2000. Aðstæður í Hjallastefnuskólum eru taldar til fyrirmyndar og þar virðist hugsað fyrir ýmsu, en kannski fyrst og fremst hugsað út fyrir rammann.  

Árangurinn er góður sem m.a. endurspeglast í að einelti þrífst ekki í skólum Hjallastefnunnar. Jákvæðni og gleði eru partur af námskránni og börnin læra meðal annars umburðarlyndi og fá þjálfun í sjálfsstyrkingu. Skólarnir eru því um margt sérstakir og öðruvísi en hinir almennu skólar landsins. Margrét Pála hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín í skólamálum, meðal annars hina íslensku fálkaorðu og verðlaun jafnréttisráðs.

 

Fann hvar skórinn kreppti

Hjallastefnan er tilkomin út frá eigin reynslu Margrétar Pálu úr eigin uppeldi og reynslu samstarfsfólks hennar. Margrét Pála hafði áður starfað sem leikskólastjóri í Reykjavík og hafði áralanga reynslu af ráðgjafastörfum þegar hún tók við sem leikskólastjóri á Hjalla í Hafnarfirði. „Það var aldrei hugmyndin að búa til módel, heldur bara góðan leikskóla. Ég hafði starfað við ráðgjöf og sá hvar skórinn kreppti. Þegar ég tók við Hjalla vildi ég finna fyrirbyggjandi leiðir við vandamálunum sem fólk var að glíma við. Markmiðið var að gera Hjalla að þeim besta leikskóla sem ég gat. Ég vann með frábærum hópi og samstarfsfólki og hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa alla tíð unnið með frábæru starfsfólki og líka bestu börnum og foreldrum í heimi,“ segir Margrét Pála um upphaf Hjallastefnunnar. „Það má segja að Hjallastefnan sé hert í eldi reynslunnar. Árum saman prófaði ég og samstarfsfólk mitt alls konar aðferðir. Ef það virkaði þá var það gott, ef það virkaði ekki þá var því sjálfhætt. Ekkert var skilið eftir nema það sem virkaði fyrir börnin, kennara og foreldra.

 

Börn eru fólk

En hvað er Hjallastefnan? Spurningin er stór en Margrét svarar henni með því að nefna þrjár meginstoðir stefnunnar.

„Allir leikskólar á Íslandi vinna á sama grunni í eðli sínu, þ.e. að sinna börnum á eins dásamlegan hátt og hægt er. Síðan koma ólíkar áherslur ofan á það og þar kemur Hjallastefnan. Fyrsta grunnstoðin okkar er lýðræði. Við erum með valfundi alla daga þar sem börnin velja viðfangsefni sín. Þau eru alveg niður í tveggja ára gömul að velja hvort þau vilja leika sér inni eða úti á leiktímum. Börnin hafa áhrif á gerð matseðils og hvað er gert í skipulögðu hópastarfi. Þannig að lýðræði og mannréttindi barna eru ein stoðin okkar.“ Margrét Pála nefnir að það séu meðal annars mannréttindi fyrir barn að fara ekki út klukkan eitt á hverjum degi af því að því er sagt að gera það. Að þurfa ekki að klára af diskinum og að fá að velja hvað það klæðir sig í. „Við vöðum ekki inn í landhelgi barna í samfélagi þar sem við vöðum ekki inn í landhelgi fullorðinna. Það myndi enginn segja mér að ég yrði að klára af diskinum mínum. Af hverju ættum við þá að segja það við börn? Börn eru fólk.“

 

Náum að gera okkar besta

Því næst útskýrir Margrét Pála hver önnur meginstoðin er: „Hún er að mæta börnum og barnafjölskyldum á eins jákvæðan og sveigjanlegan hátt og hægt er. Þess vegna er gleði og kærleikur hreinlega stórir námskrárþættir sem við vinnum með alla daga. Við kynjaskiptum börnunum til að mæta betur hverjum og einum einstaklingi.“ Kynjaskiptingin er ekki hugsuð sem almenn jafnréttisaðgerð heldur er hún tilkomin eftir reynslu af því að hafa verið með stelpur og stráka saman. „Við náðum ekki að gera okkar allra besta fyrir bæði kyn í kynjablönduðum hópum. Það hefur gefið okkur mun betri raun að kynjaskipta börnunum. Það var alltaf hætta á að sumar rólegar stúlkur væru að hálf týnast í blönduðum hópum. En í stúlknahópi erum við að ná að draga þær hundrað prósent fram. Í drengjahópum náum við að byggja upp vinnuramma fyrir strákana þar sem gaurarnir fá aðhald og fá að þróa jákvæða sjálfsmynd, vinna á sínum forsendum, en rólegri drengirnir læra að vinna í strákahópi og fá þá sjálfsmynd að þeir séu glæsilegir, með eftirsóknarverða hegðun og viðurkenndir af hinum strákunum. Karlmennska þeirra verður viðurkennd þrátt fyrir að þeir séu rólegir,“ útskýrir Margrét Pála.

 

Efla skapandi hugsun

Þriðji þátturinn er áhersla á ímyndunarafl, sköpun og frumkvæði. „Það er það sem allur heimurinn þarf á að halda! Þess vegna notum við ekki hefðbundin leikföng heldur opið leikefni sem ýtir undir þessa þrjá þætti. Meginleikefni á frjálsum tíma er heimagerður leir sem þau taka þátt í að búa til, ólitaðir trékubbar, vatn, einfalt föndurefni, borð, stólar, teppi og púðar. Við erum auðvitað með fjölbreyttara efni í skipulagðara starfi svo sem tónlist, dans og hreyfingu. Hæfnin til að hugsa frumlega snýst um að brjóta alla hugarramma um það hvað „má” og hvernig „á” að gera yfir í „hvað dettur þér í hug?“ Að fara með barnahópinn sinn berfættan út um gluggann að vetri til er dásamleg upplifun! Við eigum að leyfa okkur að brjóta hefðirnar á meðan það skaðar engan.“ Margrét segir að öll framtíðin hrópi og biðji um fólk sem getur skapað. Að þörf verði á fólki sem kemur með nýja hugsun, nýjar lausnir og nálgun á öllum sviðum þjóðfélagsins. Því sé mikilvægt að börn læri frumkvöðlahugsun og skapandi hugsun og séu hvött til að fara út fyrir rammann. „Nú er sagt að börn í grunnskólum muni í um 65% tilvika vinna störf sem við höfum ekki einu sinni hugmynd um hvað heita, þau eru ekki einu sinni til í dag. Fyrir hvað erum við að þjálfa þau,“ spyr hún.

 

Vinna með alls konar pólitískum meirihlutum

Hjallastefnan var til að byrja með þannig að allir leikskólar gátu tekið hana upp án þess að ganga inn í Hjallastefnuna. Því hefur þó verið breytt. „Það reyndist nauðsynlegt að breyta þessu. Skólar sem tóku upp stefnuna án stuðnings og samskipta voru bundnir sveitarfélagi með margar ákvarðanir. Það gekk vel fyrsta kastið en svo komu veikleikarnir í ljós. Til dæmis má nefna leikskóla sem notaði Hjallastefnuna en svo var nýr skólastjóri ráðinn inn út frá hæfniskröfum sveitarfélagsins og sá skólastjóri hafði engan áhuga á Hjallastefnunni og hætti bara með hana. Við fengum hvað eftir hvað símtöl frá óánægðum foreldrum eftir slíkt. Annað dæmi er að fólk var að nota áherslur Hjallastefnunnar og kenna sig við hana. Síðan voru þeir kannski að nota útvatnaðar leiðir og ekki að gera hlutina nógu vel. Þetta spillti okkar orðstír. Ég tók því ákvörðun um að við myndum frekar reka Hjallastefnuleikskólana sjálf til að tryggja gæðin. Þetta var erfið ákvörðun en við fórum alla leið. Við eigum allt undir orðsporinu okkar þannig að það er enginn millivegur, bara annað hvort eða.“ Skólar ganga því bæði faglega og rekstrarlega inn í Hjallastefnuna í dag á grunni þjónustusamninga við sveitarfélög. Í dag eru reknir 17 Hjallastefnuskólar, 12 leikskólar og 5 grunnskólar. Hjallastefnan starfar núna í alls níu sveitarfélögum. „Við vinnum með alls konar pólitískum meirihlutum. Hægri og vinstri fólki - í mikilli sátt,“ segir Margrét Pála.

 

„Við höfðum heldur ekkert val áður“

Þegar leikskólinn Hraunborg á Bifröst gekk inn í Hjallastefnuna var það í fyrsta skipti sem tekinn var inn skóli sem var ekki valkostur á móti öðrum skólum fyrir foreldra barnanna. „Ég var rög við að taka skrefið því þetta yrði eini leikskólinn í boði á svæðinu og foreldrarnir höfðu ekkert val. Einn pabbinn sagði þá mjög eftirminnilega setningu: „Við höfðum heldur ekkert val áður.“ Þessum foreldrum þótti ekkert flóknara að geta bara valið um Hjallastefnuleikskóla heldur en einhvern öðruvísi leikskóla. Þarna áttaði ég mig á því að við þurfum ekki að biðjast afsökunar á því að vera öðruvísi. Ég mun aldrei gleyma þessari einföldu og eftirminnilegu setningu. Úr varð að Hraunborg gekk bæði faglega og rekstrarlega inn í Hjallastefnuna,“ segir Margrét Pála. Á Tálknafirði hafa foreldrar og nemendur heldur ekki val um aðrar stefnur. Í Tálknafjarðarskóla, sem er sameinaður leik,- grunn- og tónlistarskóli, stunda ríflega sjötíu nemendur nám og er Hjallastefnan á öllum stigum skólans. Sá skóli er sá fyrsti þar sem Hjallastefnan er innleidd á unglingastigi. „Það er mjög gott gengi á Tálknafirði. Stefnan veitir skólanum í senn stuðningsnet og tækifæri. Þá stendur samfélagið fyrir vestan stórkostlega með okkur. Auðvitað heyrast alltaf einhverjar raddir sem eru ekki sammála öllu en það er bara eðlilegt. Þetta hefur gengið mjög vel.“

 

Ekkert einelti

Ekkert einelti er mælanlegt í Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík og er það eini skóli borgarinnar sem nær þeim árangri. Sömu sögu er að segja innan annarra skóla Hjallastefnunnar, þar er einelti eitthvað sem þekkist vart og eru aðeins örfá dæmi þar sem einelti hefur komið við sögu frá því Hjallastefnan var stofnuð. Ætla má að aðferðir Margrétar Pálu séu því að virka. En hvað var gert til að koma í veg fyrir einelti? „Við hentum út frímínútum, matsal, fjölmennum hópum á göngum, vinnuramma kennara og stundatöflum. Allir kennarar hafa verið mjög áhugasamir og reiðubúnir að gera miklar breytingar. Við höfum sömu áherslur í grunnskólanum og leikskólanum nema við göngum enn lengra,“ útskýrir hún. Breytingarnar eru því miklar en árangurinn er ótrúlegur.

En framfarir kosta breytingar. Margrét Pála segir að kerfið sé orðið of gamalt og virki ekki nógu vel eins og það er. Það þurfi því að breyta aðstæðum. „Fólk spyr alltaf: „Af hverju náum við ekki jákvæðum breytingum á skólunum?“ Svarið er að ef grunnskólakerfið breytist ekki, þá verða ekki breytingar á skólunum heldur. Kerfið með miðstýrðri námskrá, miðstýrðum kennarasamningum og naglföstum hefðum er nefnilega vinnurammi skólanna og kerfinu eigum við að breyta til að skólanir dafni og breytingar verði. Hver einasti skóli þarf að vera leiftrandi af nýsköpun, kennarar og skólastjóri þurfa að vera listamenn. Starfsmannahópurinn verður að skapa aðstæður þar sem öllum líður vel og tekst vel til. Við erum núna leiksoppar aðstæðnanna í kerfinu. Við breytum ekki skoðunum fólks eða skoðunum barna, en það er vel framkvæmanlegt að breyta aðstæðum. Gefur skólunum meira frjálsræði í námskrám, galopnum kennarasamningana, hendum öllu vinnufyrirkomulagi í aðstæðum barna sem virka ekki, könnum líðan barnanna sjálfra, spyrjum þau hvað þau vilja og þá skulum við sjá að eitthvað fari að gerast.“

 

Óttaðist breytta vindátt

Í dag er Hjallastefnan víða eftirsótt. Þar sem fólk á val sækjast foreldrar eftir að setja börnin sín í leikskóla og grunnskóla með Hjallastefnu og eru biðlistar langir. Það var ekki alltaf þannig. „Ég er vön að sigla í mótbyr. Ég kunni svo vel að haga seglum í mótbyr að ég fylltist skelfingu þegar ég skynjaði að vindáttin hafði breyst. Í meðbyr koma væntingar og trú til lausnanna sem Hjallastefnan býður uppá og í meðbyr er ekki við neinn að sakast nema sjálfan sig ef ekki tekst vel til,“ segir Margrét Pála og lýsir auðmýkt og þakklæti til þeirra sem sköpuðu svona mikinn meðbyr með nýjum hugmyndum hennar. „Meðbyrinn er fyrst og fremst fallegar og góðar hugsanir fólks til Hjallastefnunnar.“

Rannsóknir hafa sýnt að Hjallastefnan kemur vel út í samanburði við aðra skóla. „Þær fáu rannsóknir sem hafa verið gerðar, sýna að ef finnanlegur munur er, þá er hann okkur í hag. Síðasta rannsóknin sem gerð var sneri að mælingum á hávaða í leikskólum. Þar sýndi rannsókn dr. Valdísar Jónsdóttur að Hjallastefnuleikskólarnir mælast með minni hávaða en aðrir leikskólar. Það er eftirsóknarverð staða. Ég sjálf gerði rannsókn til meistaragráðu á Hjallabörnum sem fóru í venjulegt skólakerfi eftir leikskóla. Um margt komu þau út eins og önnur börn en það mældist þó munur á nokkrum sviðum. Sjálfsmatið var að hluta til sterkara og þeim virtist ganga betur í skóla. Stelpurnar voru líklegri til að eiga bæði stráka- og stelpuvini í sínum vinahópi. Það sem raunverulega gladdi mig þó mest var að börnin mældust jákvæðari og opnari gagnvart því að vinna með hinu kyninu.“

 

Frávikshópar settir á jaðarinn

Erlendis er hugmyndafræðin um Hjallastefnuna þekkt. Leikskólar á Norðurlöndum eru margir að nota áhrif frá Hjallastefnunni og auk þess einn leikskóli á Ítalíu. Í Noregi er einn leikskóli sem starfar 100% eftir aðferðum Hjallastefnunnar. Hugmyndafræðin er kynnt víða í uppeldis- og menntunarfræðum í háskólum en ekki hér á landi. Gerð var heimildamynd um Hjallastefnuna sem var textuð og sýnd á ríkissjónvarpi allra Norðurlandanna, nema á Íslandi. Blaðamaður veltir fyrir sér orðrómi þess efnis hvort undirliggjandi fordómar fyrir samkynhneigð Margrétar Pálu gæti haft eitthvað að segja með hvernig Hjallastefnunni var lengi vel tekið hérlendis. Hún telur það ekki ólíklegt.

„Frávikshópar og jaðarhópar njóta ekki sömu virðingar og aðrir án þess að fólk geri sér grein fyrir því. Þar á ég við fatlaða, innflutta, fólk af öðrum kynþætti, samkynhneigða og fleiri. Öll erum við „jöðruð“ og við getum lifað ágætis lífi, nema okkur leyfist minna fyrir vikið. Ef illa launaður Pólverji sem talar slaka íslensku færi t.d. í opinbera launabaráttu myndi hann fá verri viðbrögð en Íslendingur í sömu stöðu. Það er staðreynd að konur eru enn með lægri laun en karlar og svo framvegis. Ef ég hefði verið gagnkynhneigð kona í hjónabandi með vísitölufjölskyldu hefði mér leyfst að prófa mig áfram með þessi mál án þess að fá svona harkaleg viðbrögð,“ segir Margrét Pála. „Meira að segja hóflega framsett gagnrýni á Hjallastefnunni byggir á duldum fordómum þess sem mælir og viðkomandi hefur oft ekki hugmynd um það. Þessir duldu fordómar eru alvarlegu fordómarnir á Íslandi, “ bætir hún við alvarleg í bragði.

 

Munaðarleysingjaheimili í Tansaníu

Við höfum setið og spjallað lengur en til stóð. Teið er löngu búið og Margrét Pála þarf að sigla á önnur mið. Það er mikið að gera hjá stofnanda og stjórnarformanni Hjallastefnunnar. Síminn hennar hringir oft og greinilega er í mörg horn að líta. Hún hefur einnig nóg að gera í útlöndum og er fljótlega á leið til Afríku. Þar hefur hún stofnað heimili fyrir munaðarlausar stúlkur. „Í Tansaníu hefur verið alnæmifaraldur sem hefur lagt ungt fólk í hrönnum og aukið fjölda munaðarlausra. Ég og konan mín, mágkona mín og maður hennar, sem er Tansaníubúi, stofnuðum því þetta heimili. Það er rekið með mánaðarlegum framlögum, aðallega frá vinum hér á Íslandi svo og fjölskyldu minni og konunnar minnar.“

 

Léttleikandi samfélag

Framundan hjá Hjallastefnunni er áframhaldandi uppbygging ef tækifærin gefast. Margrét Pála er fegin því að Hjallastefnan er ekki valdastofnun heldur léttleikandi samfélag og vill bara að hún vaxi og dafni á meðan hún nýtur hlýrra hugsana foreldra og annarra. Hún líkir uppbyggingunni við fjölskylduna sem kemur heim eftir vinnu og kíkir í ísskápinn til að sjá hvað er hægt að kokka þann daginn. „Með öðrum orðum: Við brösum með skólana okkar og þegar tækifæri opnast og einhverjir foreldrahópar, starfsmannahópar eða sveitarstjórnir biðja okkur að koma í samvinnu, þá skoðum við það ljúflega en hönnum enga atburðarás sjálf. Ég er stolt af því að Hjallastefnan starfar eingöngu þar sem meirihluti eða allir þessara þriggja aðila hafa leitað til okkar og vilja okkur. Þá má bæta því við að við erum núna í mjög góðri samvinnu við Reykjavíkurborg um aukna uppbyggingu og styrkingu vegna skólastarfs okkar í borginni. Þar á meðal vonumst við til að byrja með miðstigsskóla innan skamms,“ segir Margrét Pála Ólafsdóttir að lokum.

 

Guðný Ruth Þorfinnsdóttir blaðamaður skráði.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is