Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
05. mars. 2014 04:00

Afgreiðsla mála á Búnaðarþingi sem lauk í gær

Alls voru 39 þingmál sem lágu fyrir Búnaðarþingi 2014 þetta árið. Þinghald hófst sunnudaginn 2. mars á Hótel Sögu og lauk að kvöldi þriðjudagsins 4. mars. Hér að neðan er farið yfir afgreiðslu mála en bent er á að nánari upplýsingar er að finna á vef Bændasamtakanna, bondi.is. Níu málum var vísað til stjórnar, tvö dregin til baka og átta voru ekki afgreidd úr nefnd. Á vef Bændasamtakanna eru auk þessa ræður og fundargerðir ásamt fleiri gögnum sem tengjast Búnaðarþingi 2014.

 

Mál sem afgreidd voru:

Mál 1 Reikningar Bændasamtaka Íslands og Nautastöðvar BÍ voru samþykktir.

 

Mál 2 Fjárhagsáætlun Bændasamtaka Íslands og Nautastöðvar BÍ var samþykkt.

 

Mál 4
Nautastöð BÍ
Búnaðarþing heimilar stjórn BÍ að stofna einkahlutafélag um rekstur og eignir Nautastöðvar BÍ. Ennfremur heimilar þingið stjórn BÍ að selja eignarhluti í félaginu til aðildarfélaga samtakanna eftir sérstökum samningum þar um, þyki það hagfellt nautgriparæktinni og heildarhagsmunum landbúnaðarins. Stjórn BÍ fylgi málinu eftir. Heimildin gildir til Búnaðarþings 2015.

Mál 6
Fjarskipti – grunnþjónusta í dreifbýli

Allsherjarnefnd hefur fjallað um innsendar ályktanir um fjarskiptamál og farið yfir afdrif mála frá síðustu búnaðarþingum. Nefndin telur að efnislega hafi ekki komið fram nýjar áherslur í innsendum erindum. Fram kom í umfjöllun nefndarinnar að BÍ hafi þegar brugðist við erindi Póst- og fjarskiptastofnunar um alþjónustu og þeirri tillögu að aflétta þjónustukvöð af Mílu. BÍ hafa lagt áherslu á að við þá breytingu sé í engu slegið af kröfu um markvissa uppbyggingu á öflugum fjarskiptum og jafna aðstöðu byggðanna til nútíma fjarskipta.

Nefndin leggur áherslu á að BÍ svari andmælaskjali PFS og ítreki ályktanir búnaðarþings. Allsherjarnefnd beinir þeim tilmælum til stjórnar BÍ að hún fjalli um og láti gera könnun á réttarstöðu þeirra sem ekki geta notið útsendinga útvarps og sjónvarps en þurfa samt sem áður að sæta því að greiða útvarpsgjald. Eftir atvikum mætti hefja slíkt mál með kvörtun til Umboðsmanns Alþingis. Allsherjarnefnd telur einnig að kanna þurfi hversu marga bæi er um að ræða þar sem ekki næst útvarps- og/eða sjónvarpsútsending.

Mál 7
Raforkuverð í dreifbýli

Jafna þarf raforkuverð í landinu. Búnaðarþing skorar á Alþingi að samþykkja frumvarp iðnaðarráðherra um að jafna á milli dreifbýlis og þéttbýlis, kostnað við dreifingu rafmagns. Búnaðarþing hvetur stjórnvöld að standa við fyrirheit sín um að kostnaður þeirra sem búa á „köldum svæðum“ og nota raforku til kyndingar, verði til jafns við hitaveitu.

Mál 11
Sjúkrasjóður BÍ
Búnaðarþing 2014 samþykkir að leggja niður Sjúkrasjóð BÍ í núverandi mynd.  Stofnun nýs sjóðs er um leið frestað um óákveðinn tíma, í ljósi þess að fjármögnun liggur ekki fyrir.  Eftirstöðvar sjóðsins við uppgjör renna til BÍ. Stjórn BÍ er falin framkvæmd málsins.

Mál 12
Félagskerfi landbúnaðarins

Að finna leiðir að fjármögnun samtaka bænda og koma með tillögur að fulltrúafjölda einstakra aðildarfélaga á búnaðarþingi.  Skipaður verði vinnuhópur til að gera framangreindar tillögur. Ef þurfa þykir verði ráðgjafi ráðinn hópnum til aðstoðar.  Haft verði víðtækt samráð við aðildarfélög BÍ og byggt á þeirri vinnu sem þegar hefur farið fram eftir því sem hægt er.  Stjórn BÍ er falið að fylgja málinu eftir.  Tillögur vinnuhópsins skulu kynntar bændum og aðildarfélögum BÍ fyrir lok október 2014 og lagðar fyrir búnaðarþing 2015. Stjórn BÍ er falið að leita samninga um fjármögnun verkefnisins með eftirfarandi hætti: Að Bændasamtök Íslands greiði 50%, búnaðarsambönd 25% og búgreinasambönd 25%.  Hlutur einstakra aðildarfélaga fari eftir hlutdeild þeirra í innborguðu búnaðargjaldi.

 

Mál 13.
Breytingar á samþykktum BÍ og þingsköpum búnaðarþings. Sjá á vef bondi.is.

Mál 14
ESB
Búnaðarþing 2014 ítrekar samþykktir fyrri þinga um andstöðu við aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þingið telur að draga eigi aðildarumsókn Íslands til baka.

Mál 17
Innflutningur á hráu, ófrosnu kjöti

Áfram verði óheimilt að flytja hingað til lands hrátt, ófrosið kjöt í ljósi þeirrar smit- og sýkingarhættu sem það getur haft í för með sér. Þrýst verði á stjórnvöld að halda áfram uppi fullum vörnum í máli ESA gegn íslenska ríkinu vegna innflutningsbanns á hráu ófrosnu kjöti.  Stjórn BÍ er falið að fylgja málinu eftir.

Mál 21
Lífrænar landbúnaðarvörur
Búnaðarþing 2014 telur mikilvægt að efla framleiðslu á lífrænum landbúnaðarvörum. Búnaðarþing 2014 hvetur bændur í öllum búgreinum til að meta og nýta þau tækifæri sem eru til staðar í framleiðslu og sölu á lífrænum landbúnaðarvörum.  Bændasamtökum Íslands verði falið að halda málþing til kynningar og fræðslu á lífrænni landbúnaðarframleiðslu í samstarfi við VOR (verndun og ræktun), landsfélag framleiðenda í lífrænum búskap.

Mál 22
Ímyndar- og kynningarmál BÍ
Búnaðarþing 2014 leggur til stofnun samráðshóps búgreinafélaga og BÍ sem markar stefnu í ímyndar- og kynningarmálum samtakanna. Mikilvægt er að sem ríkastur samhljómur sé í þeim málflutningi sem hafður er uppi innan samtaka bænda fyrir hönd íslensks landbúnaðar og heildarhagsmunir ávallt hafðir að leiðarljósi. Stjórn BÍ falið að fylgja málinu eftir.

Mál 24
Reglur um mengandi starfsemi

Búnaðarþing 2014 leggur til að ákvæði um 500 metra fjarlægðarmörk landbúnaðarbygginga í reglugerð um hollustuhætti 941/2002 verði afnumin. Þegar byggt er á skipulögðu landbúnaðarsvæði er eðlilegt að ákvæði skipulagsreglugerðar liggi til grundvallar þegar fjarlægðamörk bygginga eru ákveðin. Stjórn Bændasamtakanna vinni að framgangi málsins.

Mál 25
Álftir og gæsir
Búnaðarþing 2014 telur mikilvægt að nú þegar verði dregið skipulega úr tjóni af völdum álfta og gæsa á ræktarlöndum bænda. Safnað verði frekari upplýsingum um tjón sem álftir og gæsir valda á ræktarlöndum bænda. Á grundvelli þeirra gagna verði ákveðið hvort heimildarákvæði verði sett í lög um tímabundna skotveiði á álft og gæs í tilraunaskyni á ræktarlöndum bænda. Bændasamtökunum verði falið að vinna að málinu í samstarfi við umhverfis- og auðlindaráðuneytið.

 

Mál 30
Landbúnaðarháskólar á  Íslandi
Búnaðarþing leggur áherslu á að sjálfstæði og rekstrargrundvöllur landbúnaðarháskóla á Íslandi sé tryggður. Mikilvægt er fyrir íslenskan landbúnað og þróun hans að í landinu séu öflugir skólar sem sinna endurmenntun bænda, starfsmenntanámi, háskólanámi og rannsóknum í landbúnaði. Sjálfstæðir og öflugir landbúnaðarháskólar eru mikilvægur hlekkur í framþróun og framtíð íslensks landbúnaðar.

Búnaðarþing 2014 leggst gegn hugmyndum menntamálaráðherra um samruna HÍ og LbhÍ. Búnaðarþing hvetur stjórn BÍ til að leita allra leiða til að tryggja áfram sjálfstæði LbhÍ. Búnaðarþing telur eðlilegt að það fjármagn sem menntamálaráðherra er tilbúinn að veita til samruna HÍ og LbhÍ fari í að styrkja rekstur LbhÍ án þess að til þess samruna komi.

Mál 31
Dýralæknaþjónusta
Markmið að bæta dýralæknaþjónustu í dreifbýli og tryggja betur velferð dýra. Nauðsynlegt er að endurskoða dýralæknaþjónustu í þeim landshlutum þar sem stærð vaktsvæða hefur sýnt sig að hafa neikvæð áhrif á velferð dýra. Nauðsynlegt er að fjölga þjónustudýralæknum og bakvaktarsvæðum til að tryggja ásættanlegan viðbragðstíma dýralækna og þar með velferð dýra. Dæmi eru um að bændur hafi misst bæði nautgripi og hross vegna þess að dýralækni tókst ekki að komast tímanlega þeim til aðstoðar. Til að auka sveigjanleika og hagkvæmni þyrfti að endurskoða vaktsvæði og skoða hvort betra sé að skilgreining þeirra komi fram í reglugerð en sé ekki bundin í lögum.

Búnaðarþing 2014 skorar á stjórnvöld að tryggja auknar fjárveitingar til Matvælastofnunar svo fjölga megi þjónustudýralæknum og bakvaktarsvæðum dýralækna þar sem nauðsynlegt er.

Mál 33
Stefnumótun í landbúnaði.
Bændasamtökin og stjórnvöld vinni stefnumótun fyrir íslenskan landbúnað til lengri tíma. 

Búnaðarþing 2014 leggur áherslu á að unnin verði heildarstefnu- og sóknaráætlun fyrir landbúnað á Íslandi, sem byggi á stefnumótun búgreinafélaganna og sé unnin í nánu samstarfi við þau.

Stjórn BÍ óski eftir stefnumótun frá búgreinafélögunum og taki síðan upp viðræður við stjórnvöld um opinbera landbúnaðarstefnu til lengri tíma.

 

Mál 34
Starfsskilyrði landbúnaðarins

Búnaðarþing 2014 leggur áherslu á að hafin verði undirbúningsvinna vegna gerðar nýrra búvörusamninga, með það að markmiði að efla samkeppnishæfni, nýta sóknarfæri og treysta afkomu bænda. Þingið telur mikilvægt að fyrirkomulag tolla verði hluti af samningum, enda eru þeir ein af grunnstoðum þess að tryggja rekstraröryggi landbúnaðarins.

Bændasamtök Íslands, í samráði við þau búgreinafélög er málið varðar, óski eftir viðræðum við stjórnvöld um gerð nýrra búvörusamninga og gerður verði sér samningur fyrir hverja búgrein. Nauðsynlegt er að meta árangur núgildandi samninga, tollaumhverfis og skoða hvernig skynsamlegast er að þróa stuðningsumhverfið til framtíðar litið. Mikilvægt er að slíkt frumkvæði komi frá bændum. Á grunni búnaðarlagasamnings verði gerður rammi að starfsumhverfi landbúnaðarins.

Afar mikilvægt er að starfsumhverfi þar með talið tollar leggi grunn að íslenskri landbúnaðarframleiðslu.

Þingið leggur ennfremur áherslu á að staðið verði við núgildandi búvörusamninga og góður tími sé gefinn til aðlögunar að breytingum sem kunna að verða.

Skipaður verði starfshópur samningsaðila til að meta þá reynslu sem komin er af framkvæmd samninganna. Bændasamtök Íslands fylgi málinu eftir gagnvart sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Mál 38
Gjaldtaka vegna búfjáreftirlits
Búnaðarþing 2014 mótmælir harðlega boðaðri innheimtu vegna búfjáreftirlits. Almennt búfjáreftirlit hefur fram til þessa ekki verið gjaldskylt. Þingið beinir því til stjórnar Bændasamtakanna að leita allra leiða til að svo verði áfram.

Mál 39
Dýralæknaþjónusta – þjónustusamningar

Búnaðarþing 2014 átelur velferðarráðuneyti harðlega fyrir þann seinagang sem orðið hefur á að vinnuhópur, sem falið var að yfirfara löggjöf og reglur um afhendingu lyfja til bænda á grundvelli þjónustusamninga, hefji störf.Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is