07. mars. 2014 10:01
Byggðarráð Borgarbyggðar ákvað á fundi sínum í síðustu viku að verja 132 þúsund krónum til að leggja stikaðan göngustíg frá fólkvanginum í Einkunnum skammt norðan Borgarness að Borg á Mýrum. Um er að ræða fimm kílómetra leið sem liggja mun á milli landnámsvarðanna á Syðri-Einkunn í vesturhluta Einkunna og að klettaborginni fyrir ofan Borg á Mýrum. Að sögn Hilmars Más Arasonar formanns umsjónarnefndar Einkunna stendur til að keyra út stikur í leiðina um leið og aðstæður bjóðast á næstu dögum. Notaðar verða endingargóðar furustikur frá Skógræktarfélagi Íslands í verkið, álíka þeim sem notaðar er á göngustígum í Einkunnum.
Undirbúningur vegna stígagerðarinnar hefur staðið yfir um nokkurt skeið segir Hilmar, en nýverið var t.d. lokið við gerð tveggja A-stiga yfir girðingar á leiðinni sem Þórir Indriðason smiður sá um að smíða. Jóhannes Ellertsson í Borgarnesi sá síðan um að flytja stigana á þá staði þar sem þeir koma til með að vera þegar stígurinn verður tekinn í notkun.
Hilmar segir leiðina sem valin hefur verið fjölbreytta og skemmtilega en hún mun þræða holt og hæðir. „Þetta er falleg leið með góðum útsýnisstöðum. Frá Syðri-Einkunn liggur stígurinn um mela að skurði á landamörkum Einkunna og Borgar. Þaðan er gengið að landamerkjum við Kárastaði og í framhaldinu í kjarri vöxnum holtum í vesturátt í land Borgar. Þar endar stígurinn upp á klettaborginni við Borg. Á leiðinni er einnig að finna nokkrar tóftir en umsjónarnefndin hefur nú þegar ráðfært sig við Minjastofnun Íslands til að taka þær út,“ bætir Hilmar við sem vonast til lokið verði við framkvæmdir í vor.