11. mars. 2014 12:57
Tæplega sjö ára Hvanneyringur, Bjarki Fannar Hjaltason, er á næstunni á leið til Boston ásamt fjölskyldu sinni þar sem hann gengst undir sína aðra hjartaaðgerð. Bjarki Fannar hefur sjaldgæfum hjartagalla sem kallast Shone‘syndrom. Foreldrar hans eru Hjalti Örn Jónsson og Myrra Ösp Gísladóttir en Bjarki á einnig tvo bræður, þá Gabríel Ísak og Unnar Helga. Bjarki er duglegur strákur og segja þeir sem hann þekkja að þar sé á ferðinni hvers manns hugljúfi og hafi hann tekið veikindum sínum af miklu æðruleysi. Ferð sem þessi er afar kostnaðarsöm fyrir fjölskyldu hans og því tóku nokkrir velunnarar og vinir Bjarka höndum saman og skipulögðu styrktarkvöld á Kollubar á Hvanneyri að kvöldi sprengidags.
Boðið var upp á baunasúpu í tilefni dagsins sem og aðra gerð af súpu að hætti Jóns Friðriks, ásamt brauði. Lifandi tónlist var í umsjón Heiðars Arnar, frænda Bjarka, en hann fékk einnig góða gesti með sér á svið. Ýmiss varningur var til sölu á styrktarkvöldinu auk kökubasars. Allur ágóði af sölunni rann í styrktarsjóð Bjarka Fannars.
Þeir sem vilja styðja við Bostonferð Bjarka Fannars og fjölskyldu hans geta lagt framlög inn á styrktarreikning Bjarka: 0326-13-110061 og kt: 310807-2140. Margt smátt gerir eitt stórt.