Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
13. mars. 2014 12:47

Mikið „djók“ í Reykholtsdalnum

Salurinn smám saman fylltist af fólki sem raðaði sér við borðin með gosflösku eða jafnvel dós í hönd. Nokkurrar eftirvæntingar gætti síðastliðið föstudagskvöld enda var framundan frumsýning, sem jafnan er tilhlökkunarefni, meira að segja mikið. Ekki var spennan minni að þessu sinni því nú skyldi frumflytja splunkunýja revíu eftir Bjartmar bónda Hannesson, skáld og grínara á Norður Reykjum. Félagið sem stendur að uppfærslu þessa verks stendur á tímamótum. Rétt 100 ár eru nú síðan fyrst var sett upp leikverk í Logalandi, félagsheimili Ungmennafélags Reykdæla. Þá var aðsóknin reyndar svo góð að einn stjórnarmanna í félaginu lagði það til að fleiri yrðu sýningarnar ekki, því þrengslin hefðu verið of mikil. Sem betur fer var ekkert hlustað á hann. Sýningarnar síðan þetta var skipta mörgum tugum og reyndar búið að byggja við og ofan á húsið mörgum sinnum síðan þannig að alltaf er nóg pláss.

 

 

Nú sem fyrr feta ungmennafélagar ekki troðnar slóðir í leiklistinni, enda fáir sem búa að því að hafa leikrita- og revíuskáld í sinni sveit. Sögusviðið í revíunni „Ert´ekk´að djóka (elskan mín)?“ er uppsveitir Borgarfjarðar. Svo slæðist jú ein og ein saga með úr neðri byggðum, meðal annars handan Hvítár og alla leið úr Borgarnesi. Hæfileg kerskni, mikið glens og hellings grín eru í bland við örlítið „dass“ af alvarleika. Í leikskránni mátti lesa að í sögupersónum mætti finna sambland, eða hreinræktun, ýmissa sveitunga og annarra mektarmanna. Það má til sanns vegar færa. Léttleikinn var í fyrirrúmi en stutt í alvarleikann, enda afar nauðsynlegt að fá einstaka sinnum tækifæri til að hvíla vanbúna brosvöðva, nú á síðustu og verstu tímum. Söguumhverfið í verkinu er dæmigerð íslensk sveit - með bætiefnum. Hefðbundin hjón með afkomendum, viðhengjum ásamt frönskum kokki hafa þegar hér er komið sögu stofnað til ferðaþjónustu. Fram kemur að hvert skúmaskot á bænum og útihúsum er nú nýtt til að þjóna ferðamönnum á einhvern hátt. Síðast var hrútastían tekin í gagnið - og jú, klósett gamla mannsins á efri hæðinni, þar sem japanskir ferðamenn fá að skoða norðurljósin. Góðlátlegt grín er gert að hinum nýjungagjörnu bændum sem ætla að „meika það“ af þjónustu við ferðamenn, eins og reyndar restin af þjóðinni einnig. Nágranni þeirra, bóndi af kærulausari gerðinni, blandast í spilið, með allt niðrum sig í hreinlæti í fjósinu og er við það að fá allra síðustu aðvörun fulltrúa MAST. Gestir á ferðaþjónustubænum eru af ólíkum toga, allt frá hálf-kynskiptum starfsmanni Páfagarðs til forsetahjóna. Hverjum dytti önnur eins blanda í hug, nema þá Bjartmari?

 

Söguþráðurinn í verkinu er ótrúlega margslunginn og víða sem komið er við. Staðfærðir brandarar við raunveruleikann, söngur og glens. Kvartett söngvara, Hálsasveitin, leikur stórt hlutverk og syngur við raust af og til og stígur dansspor vítt um salinn. Þar eru ýmis þekkt lög sungin við texta Bjartmars og við gítarundirleik hans. Burðarhlutverk í verkinu hafa síðan sem fyrr bræðurnir þrír frá Geirshlíð, eiginkonur, börn eða nágrannar þeirra. Ekki alveg laust við að læðist að manni sá grunur að Bjartmar hafi skrifað nokkur hlutverkanna fyrir þá. Einstaka Reykdælingur og Hálssveitungur fær svo að fljóta með.

 

Í heildina er revían Ert´ekk´að djóka (elskan mín)? alveg ljómandi góð. Þráðurinn er heilsteyptur, hefur sitt upphaf og eðlilegan endi, innansveitar- og héraðsskaupið er vel skiljanlegt meira að segja brottfluttum, og húmorinn er prýðilegur, enda ekki við öðru að búast. Ef út á eitthvað mætti setja þá er það annars vegar nafnið á verkinu. Kostur að allir kunni að slá því inn á tölvu. Hins vegar er það lengdin. Það hefði bætt verkið að kippa tveimur eða þremur smáatriðum úr til að koma heildarlengd sýningarinnar með hléi niður í tvo og hálfan tíma. Engu að síður tekst hér Þresti Guðbjartssyni leikstjóra að vinna vel úr efniviðnum; leikurum og handritinu, og enginn vafi að hann nær vel til hópsins. Semsagt: Prýðileg frammistaða leikara, söngvara, baksviðsfólks, Þrastar og ekki síst Bjartmars. Mér fannst þetta besta verkið hans til þessa. Héraðsbúar og nágrannar allir verða að gera sér ferð í Logaland til að sjá þetta verk. Annað er einfaldlega ekki í boði. Sýnt verður þétt næstu daga, fimmtudag til laugardags og hefjast allar sýningar klukkan 20:30.

 

-mm

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is