Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
14. mars. 2014 10:35

Skallagrímsmenn áfram meðal þeirra bestu

Boðið var upp á spennuleik í Borgarnesi í gærkvöld þegar Skallagrímsmenn tóku á móti liði Hauka frá Hafnarfirði í næst síðustu umferð Dominosdeildar karla í körfubolta. Jafnt var að loknum venjulegum leiktíma 79:79 og því þurfti að grípa til framlengingar þar sem heimamenn höfðu betur 99:90. Skallagrímsmenn hafa þar með tryggt sér 10. sæti deildarinnar sem tryggir þeim áframhaldandi veru í efstu deild á næsta tímabili.

Leikurinn fór rólega af stað. Bæði lið buðu upp á öflugan varnarleik í byrjun, sérstaklega Haukar sem héldu sóknarleik heimamanna í skefjum fram af. Borgnesingar hresstust þó í sókninni og var staðan eftir leikhlutann 15:18 fyrir gestina. Hafnfirðingar héldu áfram að vera yfir í öðrum leikhluta. Heimamenn voru þó ekki langt undan og með öflugum sóknarleik komust þeir yfir þegar tæpar tvær mínútur voru til hálfleiks, 30:29. Þeir bættu síðan lítillega við forskotið áður en flautað var til hálfleiks en þá var staðan 35:31. Heimamenn byrjuðu betur í síðari hálfleik og komust í 40:31 eftir tveggja mínútna leik. Haukar snéru hins vegar leiknum sér í vil með snörpu áhlaupi og breyttu stöðunni í 42:45. Með mikilli baráttu komust Borgnesingar þó aftur yfir áður en leikhlutanum lauk. Staðan þá 59:53 fyrir Skallagrím.

 

Heimamenn voru lengstum yfir í lokaleikhlutanum en misstu forskotið um miðjan leikhlutann til Hafnfirðinga sem náðu fimm stiga forskoti með mikilli baráttu. Skallagrímsmenn minnkuðu þó muninn niður í tvö stig þegar tæpar 15 sekúndur voru eftir. Þá tóku Haukar leikhlé og lögðu á ráðin fyrir lokasóknina. Innkast þeirra eftir leikhléið rataði þó í hendur Skallagrímsmannsins Benjamin Curtis Smith sem hélt beint í sókn og jafnaði leikinn 79:79. Hafnfirðingar fengu tækifæri til að hremma sigurinn á lokasekúndunum en náðu því ekki. Allur vindur virtist síðan úr gestunum í framlengingunni. Heimamenn gengu á lagið undir forystu Benjamin Curtis Smith og lönduðu þeir að lokum öruggum sigri 99:90 við mikinn fögnuð stuðningsmanna sem fjölmenntu á leikinn.

 

Stighæstur Skallagrímsmanna var Benjamin Curtis Smith sem var langbesti maður vallarins í gær. Hann skoraði samtals 52 stig, tók 10 fráköst og gaf 8 stoðsendingar. Næstir komu Grétar Ingi Erlendsson sem skoraði 16 stig og Egill Egilsson sem skoraði 12 stig. Einnig skoruðu Páll Axel Vilbergsson 9 stig, Ármann Ö. Vilbergsson 5, Trausti Eiríksson 3 og Atli Aðalsteinsson 2.

 

Skallagrímsmenn eru þar með komnir með 12 stig í 10. sæti og eru fjórum stigum á undan KFÍ sem á tvo leiki eftir. Þar sem Skallagrímsmenn standa betur að vígi innbyrðis gagnvart Ísfirðingum eru þeir þar með búnir að tryggja sæti sitt í Dominos deildinni að ári. Liðið á nú einn leik eftir á tímabilinu og fer hann fram á sunnudaginn gegn Grindvíkingum á útivelli.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is