17. mars. 2014 06:01
Frumkvöðlakvöld verður í Gamla Kaupfélaginu við Kirkjubraut á Akranesi í kvöld, 17. mars kl. 20-22. Það er atvinnu- og ferðamálanefnd Akraneskaupstaðar sem stendur fyrir frumkvöðlakvöldinu. Markmiðið er að skapa vettvang þar sem einstaklingar geta kynnt hugmyndir sínar fyrir öðrum, leitað ráða, byrjað samstarf og fengið upplýsingar, allt á einum stað. Fjórir frumkvöðlar og hugmyndasmiðir munu kynna þær. Það eru Ketill Már Björnsson sem kynnir hugmynd sína um risalíkan: „Ísland í 3vídd og Akranes á kortið.“ Karen Emilía Jónsdóttir kynnir lífrænt vottuð matvæli – tækifæri til atvinnusköpunar. Þá munu systkinin Helga Ingibjörg Guðjónsdóttir og Kristján Hagalín Guðjónsson kynna nýtt fyrirtæki í ævintýraferðum um gersemar Vesturlands, en fyrirtækið heitir Wild West Tours. Loks mun Magnús Freyr Ólafsson kynna sjóstangaveiði og möguleika til vaxtar á Akranesi.
Eftir kynningar frumkvöðlanna verða örkynningar frá aðilum sem styðja við frumkvöðla. Það eru: Markaðsstofa Vesturlands, Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Frumkvöðla- og nýsköpunarsetrið Hugheimar, Frumkvöðlasetrið á Bifröst og Samtökin Vitbrigði Vesturlands. Sævar Freyr Þráinsson verður fundarstjóri en Rakel Pálsdóttir söngkona flytur nokkur lög.