20. mars. 2014 09:01
Byggðarráð Dalabyggðar samþykkti tillögu að umsókn í styrkvegasjóð Vegagerðarinnar á fundi sínum í liðinni viku. Sótt var um 10,7 milljónir króna til framkvæmda á þessu ári við vegi í Dalabyggð sem ekki eru á framfæri Vegagerðarinnar, en á síðasta ári fékk Dalabyggð þriggja milljóna króna styrk úr styrkvegasjóði. Sveinn Pálsson sveitarstjóri Dalabyggðar segir að listinn sé langur frá ári til árs yfir þá vegi sem þarfnist orðið mikilla endurbóta og viðhalds. Sá listi styttist nánast ekkert. Þessir vegir séu til sveita framar lögbýla sem enn eru í ábúð og því ekki lengur á framfæri Vegagerðar. Vegir sem notaðir séu mikið af bændum og ferðafólki, fram á heiðar og afrétti. Aðspurður sagði Sveinn að fyrir þær þrjár milljónir sem fengust í fyrra hafa m.a. tekist að laga veginn í Flekkudal á Fellsströnd og Villingadalsveg á Skarðsströnd. Hann segir að upphæðirnar skiptist mikið milli vega og ekki sé hægt að gera mikið á hverjum stað. Þá séu peningarnir einkum fljótir að fara ef t.d. þurfi að laga ræsi eða koma nýju fyrir eins og gerðist einmitt varðandi aðra stærri framkvæmdina í fyrra.