Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
24. mars. 2014 06:01

Prestssetrið í Saurbæ undirlagt af myglusvepp

Myglusveppur finnst reglulega í húsum hér á landi og hefur verið töluverð umræða um slíkt undanfarin ár. Nú hefur fundist myglusveppur í prestssetrinu að Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Að sögn sr. Kristins Jens Sigurþórssonar hafa íbúarnir í Saurbæ glímt við raka í kjallara hússins til margra ára. „Það hefur verið farið í ýmsar aðgerðir á undanförnum árum. Gólfið hefur verið brotið upp tvisvar og búið er að brjóta upp vegg einu sinni. Alltaf héldu menn að það væri verið að komast fyrir vandann en svo reyndist ekki vera. Það var svo á síðasta ári sem okkur fór að gruna að húsið gæti verið sýkt af myglusvepp,“ segir Kristinn Jens, sem hefur verið sóknarprestur í Saurbæ í nærri átján ár.

 

 

„Það er fasteignasvið Þjóðkirkjunnar sem hefur með þetta að gera og í janúar var farið í málið af fullum krafti,“ segir Kristinn. Orsök rakavandans er nú fundin en ekki er vitað hve lengi vandamálið hefur verið til staðar. „Það fannst sprunga í hitaveituröri rétt utan við húsið og úr henni hafði lekið ofan í jarðveginn og undir húsið. Í janúar voru svo tekin sýni og athugun gerð á því hvort myglusvepp væri að finna í húsinu og niðurstaðan var sú að mikil sýking fannst í kjallaranum ásamt smiti á efri hæðum hússins. Það var aðallega einn veggur sem bar þess merki að vera sýktur. Málning hafði flagnað af og skellurnar í honum voru farnar að ummyndast. Óteljandi tegundir eru til af myglusvepp, misskaðlegar og nú er verið að tegundagreina þá myglu sem fundist hefur í húsinu,“ segir Kristinn Jens. Ekki er enn vitað um tjón af völdum sveppsins en í kjallaranum eru meðal annars skrifstofa prests sem hefur að geyma töluvert safn bóka. „Það er verið að vinna í þessu öllu. Í gær voru tekin sýni úr plötunni og niðurstaða kemur úr því eftir nokkra daga. Sveppurinn verður svo hreinsaður í burtu en ég kann ekki að útskýra hvernig það verður gert, þannig að það er best að ég hafi sem fæst orð um það. Það er búið að senda allt innbú okkar suður í hreinsun og í kjölfar hennar kemur í ljós hvort við höfum lent í einhverju tjóni með eigur okkar.“

 

Ekki nýtt af nálinni

Myglusveppur í húsum er ekki nýtt vandamál. Kristinn nefnir sem dæmi að rætt sé um hann í Biblíunni og þar eru afleiðingar af hans völdum flokkaðar með holdveiki. „Í þriðju Mósebók er talað um svona sýkingu af völdum myglu og með hvaða hætti hún skuli hreinsuð. Þar stendur einnig að ef ekki takist að hreinsa hana skuli húsið jafnað við jörðu og enginn megi búa þar framar. Þannig að sýking af þessum völdum er ekki ný af nálinni og auk þess litin mjög alvarlegum augum. Menn þekktu þetta hérlendis sem húsasótt áður fyrr,“ útskýrir Kristinn. Hann segir að ekki sé frá því að sveppurinn hafi haft áhrif á heilsu fjölskyldunnar, einkum í öndunarfærum og lungum hjá honum sjálfum. Ekki liggur enn fyrir hvenær framkvæmdum við lagfæringar á prestssetrinu í Saurbæ muni ljúka.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is