Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
20. mars. 2014 03:14

Stöngin inn – aldeilis frábær kvöldskemmtun

Það er óhætt að segja að hvert stórvirkið á sviði leiklistar reki annað um þessar mundir. Að minnsta kosti fjögur áhugaleikfélög hér á Vesturlandi eru nú að sýna verk. Eitt þeirra, Leikdeild Umf. Skallagríms, frumsýndi síðastliðinn föstudag söng- og gamanleikinn Stöngin inn. Leikritið var æft og er sýnt í félagsheimilinu Lyngbrekku á Mýrum. Undirritaður var á frumsýningu verksins og verður að segjast eins og er að sjaldan hef ég skemmt mér jafn vel á leiksýningu. Kannski að ABBA sýning úti í Lundúnum slái þetta við, en þar var vissulega atvinnufólk á ferð. Frábært starf hefur verið unnið í Lyngbrekku; jafnt í leik, söng og dansi.

 

 

Starf leikdeildarinnar hvílir á gömlum merg en allt frá árinu 1916 hefur hún fært á fjalirnar um 80 leikverk stór og smá. „Stöngin inn“ er bráðskemmtilegt nýtt verk eftir Guðmund Ólafsson leikara. Höfundurinn fór á efri árum að semja leikrit og má segja að það sé synd að hann hafi ekki byrjað fyrr, því verk þetta er hreint út sagt frábærlega skrifað og kryddað með heimsþekktum slögurum hinnar sænsku ABBA hljómsveitar. Stöngin inn var frumsýnd í fyrsta sinn fyrir ári hjá sameiginlegu leikfélagi Ólafsfjarðar og Siglufjarðar og hlaut á síðasta ári verðlaun sem athyglisverðasta leiksýning áhugaleikfélaganna og var því í kjölfarið sýnt i Þjóðleikhúsinu eins og hefð er fyrir.

 

Efni söng- og gamanleiks þessa vísar í forngríska gamanleikinn Lýsiströtu þar sem konurnar reyndu að fá karlana til að láta af stríðsrekstri með því að setja þá í kynlífsbann. Hér eru það hins vegar eiginkonurnar í litlu bæjarfélagi sem freista þess að fá karlana til að sýna sér meiri athygli. Þeir eru jú forfallnir knattspyrnuáhugamenn og sem slíkir horfa á fótbolta í tíma og ótíma og sniðganga konur sínar á meðan. Konurnar deyja hins vegar ekki ráðalausar og bindast samtökum um að setja karlana í kynlífssvelti þar til þeir láta af þessu háttarlagi sínu. Líf án fótboltans reynist körlunum erfitt og sem slík heppnast hugmynd kvennanna fullkomlega.

 

Leikarar í uppsetningu Umf Skallagríms eru sextán talsins. Þar af er helmingur að stíga sín fyrstu spor á sviði. Ekki er með nokkru móti hægt að sjá hverjir eru sviðsvanir og hverjir ekki því leikurinn er jafn og góður. Alls koma svo yfir þrjátíu manns að sýningunni með einum eða öðrum hætti baksviðs og í undirbúningi. Samlestur hjá ungmennafélögum hófst í byrjun desember. Í febrúar tóku við sviðsæfingar í Lyngbrekku undir stjórn Rúnars Guðbrandssonar leikstjóra sem hlotið hefur frábæra dóma fyrir sýningar sem hann hefur stýrt á undanförnum árum. Fjörug Abbalögin leika svo stórt hlutverk eins og áður segir og var leikhópurinn við stífar söngæfingar hjá Theodóru Þorsteinsdóttur skólastjóra í Tónlistarskóla Borgarfjarðar í janúarmánuði. Birna Hafstein stýrði dansatriðum sem voru býsna mörg í sýningunni. Þriggja manna hljómsveit leikur svo undir í sýningum undir stjórn Steinunnar Pálsdóttur, en auk hennar skipa hljómsveitina Halldór Hólm og Magnús Kristjánsson.

Augljóst er að stjórn leikdeildar, undir stjórn Olgeirs Helga Ragnarssonar, er ekki að víla hlutina fyrir sér. Hún ræðst í hvert stórvirkið á fætur öðru. Af þeim sýningum sem ég hef séð undanfarin ár, sem þó eru býsna margar, verð ég að segja að þessi er best.

 

Handritið er hreint út sagt stórvel skrifað, hnittin tilsvör og kómísk atriði sem hvert um sig gerir sýninguna að samfelldum gleðileik. Verkið er því bráðskemmtilegt og hvet ég alla sem þess eiga kost að mæta í Lyngbrekku og láta það ekki framhjá sér fara. Til hamingju ungmennafélagar.

 

Magnús Magnússon.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is