21. mars. 2014 02:00
Snæfellingar voru aldrei líklegir til að leggja deildarmeistara KR að velli þegar liðin mættust í fyrsta leik einvígisins í 8-liða úrslitum í Vesturbænum í gærkveldi. KR hafði tök á leiknum allan tímann og vann öruggan 98:76 sigur Leikmenn Snæfells virtust ekki hafa nógu mikla trú á verkefninu og spurning hvort þeir verði búnir að fá hana þegar liðin mætast í öðrum leik einvígisins í Hólminum á sunnudag.
KR-ingar tóku strax frumkvæðið í leiknum, voru átta stigum yfir eftir fyrsta leikhluta og níu stigum munaði á liðnum í hálfleik. Þá var staðan 48:39 fyrir KR. Svipaður munur hélst áfram fram í fjórða leikhluta að allur vindur virtist úr gestunum og heimamenn sigldu heim öruggum sigri.
Atkvæðamestur Snæfellinga í leiknum var Travis Cohn III með 21 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar, Sigurður Á Þorvaldsson skoraði 19 stig, Jón Ólafur Jónsson 10, Stefán Karel Torfason og Snjólfur Björnsson 5 stig hvor, Finnur Atli Magnússon 4 og 9 fráköst, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 4 stig, Þorbergur H Sævarsson 3 og Kristján P Andrésson 2.