25. mars. 2014 01:30
Í gærkveldi var spiluð önnur lota í Opna Borgarfjarðarmótinu í bridds. Spilað var í Lindartungu og er óhætt að segja að heimamenn hafi tekið gestunum vel, borð hlaðið kræsingum í hléinu. En af spilamennskunni er það að frétta að Hvalstrendingarnir Guðmundur Ólafsson og Hallgrímur Rögnvaldsson skoruðu manna mest, 56,5%, og eru nú sem stendur í 4. sæti mótsins. Jóhann Oddsson og Kristján Axelsson skoruðu 55,7% og lyftu sér upp í 2. sætið. Bræðurnir Guðmundur og Unnsteinn höfðu þriðja besta kvöldskorið og eru í 5. sæti mótsins. Þorvaldur Pálmason og Jón Viðar Jónmundsson leiða mótið en þeir urðu fjórðu í lotunni í gær. Mótinu lýkur á Akranesi að kveldi komandi fimmtudags og hefst spilamennska kl. 20:00. Gestir eru velkomnir en spilað er í sal eldri borgara.