25. mars. 2014 03:07
Um eitt hundrað manns mættu á fund um byggðamál; samgöngumál, rafmagnsmál, fjarskiptamál og ýmiss önnur málefni sem haldinn var á sveitasetrinu Vogi á Fellsströnd sl. mánudagskvöld. Mæting á fundinn var framar vonum en það var Trausti Bjarnason bóndi á Á sem var einn helsti hvatamaður fyrir fundinum. Þarna voru mættir auk íbúa í Dalabyggð og sveitarstjórnarfólks, fjórir alþingismenn; Elsa Lára Arnardóttir, Jóhanna Sigmundsdóttir, Einar K Guðfinnsson og Haraldur Benediktsson. Magnús Valur Jóhannsson frá Vegagerðinni mætti á fundinn sem og Björn Sverrisson frá Rarik. Sveinn Pálsson sveitarstjóri Dalabyggðar sagði að fundurinn hafi að mörgu leyti verið ágætur, upplýsingagjöfin góð en engin loforð hafi verið gefin.
Sveinn segir að peningaleysi hafi verið nefnt sem helsta ástæðan fyrir því að varla væri von á stórkostlegum úrbótum í hagsmunamálum héraðsins alveg á næstunni. Samgöngumálin hafi mikið verið rædd og sú staðreynd að Dalir hefðu setið á hakanum í langan tíma, svo sem varðandi fjárveitingar til stofnvega. Hvað rafmagnsmálin varðaði hafi helst verið rætt um að tryggja afhendingaröryggi með því að laga útsláttarkerfið, þannig að minni svæði yrði þá úti ef til rafmagnsleysis kæmi. Einnig væri vilji til að koma strengjum í jörð þar sem flutningskerfið væri veikast, en í Saurbænum var strengur lagður í jörð á sjö kílómetra kafla á síðasta ári. Sveinn sagði að enginn fulltrúi hafi verið mættur frá fjarskiptafyrirtækjunum, en fjarskiptamálin brynni mjög á íbúum í Dölum. Auk þess sem fulltrúar frá fyrrgreindum stofnunum; Vegagerð og Rarik, skýrðu mál tóku allir þingmennirnir sem mættu á fundinn til máls og íbúar í Dölum beindu til þeirra fyrirspurnum um byggðamálin.
Halla Steinólfsdóttir bóndi í Ytri-Fagradal sagði að á fundinum hefði m.a. borið á góma að ókostur væri víða í Dölum að ekki væri hægt að fá þriggja fasa rafmagn, þá væru dauðir punktar í fjarskiptakerfinu ekki síst bagalegir fyrir ferðafólk á svæðinu. „Það eina sem við förum fram á er betra vegakerfi, tryggara rafmagn og fjarskiptakerfi eins og aðrir landsmenn,“ segir Halla í Ytri-Fagradal.